Kyrrahafið í hlutverki mótleikarans

INNLENT  | 2. júní | 11:38 
Hafstraumar og vindar höfðu mikið að segja við túlkun Shailene Woodley í hlutverki sínu í nýrri kvikmynd Baltasars Kormáks, Adrift . Hún segir draumi líkast að vinna með Baltasar. „Ég hef aldrei átt jafn gott samstarf við jafn frjóan leikstjóra,“ segir Woodley.

Hafstraumar og vindar höfðu mikið að segja við túlkun Shailene Woodley í hlutverki sínu í nýrri kvikmynd Baltasars Kormáks, Adrift. Kvikmyndin byggist á raunverulegum atburðum, sjávarháska kærustuparsins Tami Oldham, sem Shailene leikur, og Richard Sharp, en þau urðu fellibylnum Raymond að bráð á Kyrrahafi árið 1983. Höfðu þau tekið að sér að sigla skútu frá Tahítí til San Diego í Bandaríkjunum.

Hverfist meginhluti myndarinnar um sjálfsbjörg og innri , en 41 dagur leið þar til landi var náð.

Baltasar Kormákur er þekktur fyrir að líkja eftir raunverulegum aðstæðum á tökustöðum kvikmynda sinna og er Adrift engin undantekning á því. Kvikmyndin var tekin upp við Fídji-eyjar í Kyrrahafi, um 90% á rúmsjó. Kvikmyndagerðarfólkið sigldi því til vinnu á hverjum morgni með hraðbáti í allt að þrjá tíma um þriggja mánaða skeið.

 

 

Náttúruöflin í nýju ljósi

Woodley segir alla sem að myndinni komu hafa tekið skref út fyrir þægindarammann og glímdu margir við sjóveiki. Aðstæður voru krefjandi, en hún lýsir því að náttúran hafi þó heillað frá fyrsta degi. Jafnvel þótt hún hafi nokkra reynslu af siglingum hafi þriggja mánaða dvöl á hafi úti varpað nýju og skýru ljósi á náttúruöflin.

„Nú til dags lifum við mörg lífinu ótengd náttúrunni og það er auðvelt að gleyma því að allur heimurinn tengist með einum eða öðrum hætti. Í vistkerfinu vinna ótal þættir saman og það var einstakt að fá að upplifa þetta á tökustað,“ segir hún og nefnir að sjaldgæft sé að leikstjórar og framleiðendur taki raunverulegar aðstæður umfram tilbúinn raunveruleika í myndveri.

„Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að fólk elskar kvikmyndir Baltasars á borð við Everest og Djúpið, að náttúran leiki jafn stórt hlutverk og leikarar og kvikmyndatökumenn,“ segir Woodley. Blaðamaður útskýrir að Íslendingar muni sjálfsagt vilja lesa um samstarfið við Baltasar Kormák, enda sé hann af mörgum dáður hér.

 

 

„Það skil ég vel! Það er draumi líkast að vinna með honum, ég hef aldrei átt jafn gott samstarf við jafn frjóan leikstjóra,“ segir hún og kveðst hafa fengið gott rými til að túlka hlutverk sitt eftir eigin höfði.

Hún segir Baltasar eldkláran og færan í sínu fagi og nefnir sérstaklega auðmýkt hans gagnvart verkefninu. „Hann var mjög meðvitaður um að hann, rúmlega fimmtugur karlmaður, væri að segja sögu þar sem kona er í aðalhlutverki.

Hann vildi segja söguna frá hennar sjónarhorni og reyndi ekki að skilja fullkomlega sjálfur hvað flýgur í gegnum huga konu á þrítugsaldri í aðstæðum sem þessum, heldur lét hann mig og aðra um að leiða það í ljós. Síðan hjálpuðumst við að við að byggja þetta inn í söguþráðinn,“ segir Woodley.

Greinin í heild sinni birtist í Morgunblaðinu.

Þættir