Er að nálgast mitt besta form

ÍÞRÓTTIR  | 12. júní | 9:00 
„Ég svona nálgast mitt besta í rólegheitum. Það er búið að ganga vel á æfingum og mér líður vel í líkamanum og er að nálgast mitt besta form,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Rússlandi í dag.

„Ég svona nálgast mitt besta í rólegheitum. Það er búið að ganga vel á æfingum og mér líður vel í líkamanum og er að nálgast mitt besta form,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Rússlandi í dag.

Gylfi Þór er nýkominn aftur á ferðina eftir að hafa meiðst í leik með Everton í mars en hann tók þátt í leikjunum á móti Norðmönnum og Ganverjum sem voru þeir síðustu hjá íslenska landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið.

„Ég hef náð að bæta mig jafnt og þétt varðandi hnéð og það hefur ekki komið neitt bakslag. Mér fannst í leiknum á móti Gana að ég hefði alveg getað spilað í 90 mínútur en það hefði ekki verið mjög skynsamlegt. Ég býst alveg við að geta spilað allan leikinn á móti Argentínu á laugardaginn,“ sagði Gylfi.

Hvernig reiknið þið með að leikurinn við Argentínu muni þróast?

„Það má búast við því að þeir verði mikið með boltann. Við þurfum að verjast töluvert. Við erum vanir því og erum góðir í því. Við verðum að vera þolinmóðir og nýta okkur færin þegar þau gefast. Vonandi getum við nýtt okkur þá veikleika sem eru í argentínska liðinu. Sóknarmenn þeirra eru með þeim bestu í heiminum og það verður erfitt að verjast þeim en það er okkar styrkur að verjast með mörgum mönnum. Við verðum að vera þéttir og spila eins og við gerðum á EM í Frakklandi og í undankeppni HM,“ sagði Gylfi.

Hafið þið eitthvað rætt um það hvernig þig ætlið að halda aftur af leikmanni nr. 10 (Lionel Messi) í leiknum á laugardaginn?

„Nei, nei við gerum bara það sama og við höfum alltaf gert á móti bestu leikmönnum þeirra liða sem við spilum á móti. Við verðum nálægt hver öðrum og þéttir fyrir. Það hefur gengið vel hingað til og við förum ekkert að breyta því,“ sagði Gylfi en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

 

Þættir