Allir í Rostov klárir að styðja Ísland

ÍÞRÓTTIR  | 12. júní | 9:50 
„Við erum að gera alla réttu hlutina fyrir leikinn á móti Argentínu,“ sagði framherjinn Björn Bergmann Sigurðarson í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í dag.

„Við erum að gera alla réttu hlutina fyrir leikinn á móti Argentínu,“ sagði framherjinn Björn Bergmann Sigurðarson í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í dag.

Björn Bergmann er 27 ára gamall sem hefur skorað 1 mark í 13 leikjum með íslenska landsliðinu en hann leikur með rússneska liðinu Rostov ásamt samherjum sínum í landsliðinu, Ragnari Sigurðssyni og Sverri Inga Ingasyni. Ísland mætir einmitt Króatíu í Rostov í síðasta leik sínum í riðlakeppninni þann 26. Júní.

„Við erum búnir að skoða argentínska liðið mjög vel og sjá hvað eigum að gera og ekki gera í leiknum. Við verðum 100% klárir í þennan leik. Ég vil að sjálfsögðu spila þennan leik en maður skilur líka alveg ef einhverjir aðrir fá að spila í staðinn. Það er mikil upplifun að vera með landsliðinu á HM. Maður sparaði sig fyrir EM en er svo mættur á HM sem er alveg geggjað,“ sagði Björn Bergmann í samtali við mbl.is.

Björn reiknar með því að íslenska landsliðið fái öflugan stuðning í leiknum á móti Króatíu sem fram fer í Rostov þar sem Björn þekkir vel til.

„Ég er ánægður að einn af okkar leikjum verður í Rostov og ég er líka ánægður með að HM fari fram í Rússlandi. Það verður frábært að mæta Króatíu á Rostov Arena. Ég er búinn að spila nokkra leiki á þeim velli og ég skoraði fyrsta markið sem skorað var á vellinum. Við fáum góðan stuðning í Rostov og ég fékk meira að segja skilaboð í gær frá einum gaur í Rostov sem sagði að allir í Rostov séu klárir að styðja Ísland. Það verður stemning þar,“ sagði Björn Bergmann en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þættir