Finnst Hannes eiga meira skilið

ÍÞRÓTTIR  | 19. júní | 8:55 
Það mæðir mikið á Guðmundi Hreiðarssyni, markvarðarþjálfara íslenska landsliðsins í knattspyrnu, en hann heldur markvörðunum Hannesi Þór Halldórssyni, Rúnari Alex Rúnarssyni og Frederik Schram við efnið á æfingum landsliðsins á HM í Rússlandi.

Það mæðir mikið á Guðmundi Hreiðarssyni, markvarðarþjálfara íslenska landsliðsins í knattspyrnu, en hann heldur markvörðunum Hannesi Þór Halldórssyni, Rúnari Alex Rúnarssyni og Frederik Schram við efnið á æfingum landsliðsins á HM í Rússlandi.

Hannes Þór vakti heimsathygli með frammistöðu sinni gegn Argentínumönnum í fyrsta leik Íslands á HM um síðustu helgi og í gær bárust af því fréttir að Rúnar Alex sé búinn að semja við franska 1. deildarliðið Dijon en hann hefur spilað með danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland undanfarin ár.

„Það má eignlega segja að það séu búnir að vera stórir dagar hjá þeim öllum þremur. Hannes átti frábæran leik á móti Argentínu og svo var Rúnar Alex að skrifa undir flottan samning í Frakklandi og verður í stærstu deild sem íslenskur markvörður leikur í,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is í morgun.

Hvernig leið þér þegar Hannes varði vítaspyrnuna frá Messi?

„Þetta var eiginlega svolítið skrýtið. Ég nánast þorði ekki að horfa á þetta en ég fór svona í hálfgerðan þægindahring og lét hugann reika. Svo varði hann vítið og ég var ekki ánægður fyrr en boltinn var kominn í skjól. Þá áttaði maður sig á þessu. Þetta var geggjað hjá Hannesi.

Það er erfitt að kortleggja Messi. Við hefðum örugglega þurft að skoða 300 vítaspyrnur ef við hefðum ætlað að skoða þær allar. Við tókum vítaspyrnur hans síðustu tvö árin og klipptum þær niður. Síðasta spyrnan sem hann tók á móti Haítí var í sama horn og þá skoraði hann. Ef maður á að lesa í hann þá er kannski þetta það horn sem hann notar þegar allt er undir. Svo eru til vítaspyrnur sem hann tekur í gagnstætt horn. Þá neglir hann boltanum upp í vinkilinn.

Vinnureglan er sú að markverðirnir fá kubb með aukaspyrnum, vítaspyrnum og fleiri atriðum og síðan er ég ekkert að trufla þá eftir að þeir fá kubbinn. Mér finnst það ekki vera mitt að segja þeim hvað þeir eiga að gera síðan í leiknum. Þá meta þeir bara að aðstæður og þetta var alfarið ákvörðun Hannesar að fara í þetta horn og sú ákvörðun var rétt, sagði Guðmundur.

Sérðu fyrir þér að Hannes fari til annars félags í sumar?

„Eins og ég hef sagt í einhverjum fjölmiðlum þá finnst mér hann alveg nógu góður til að vera í toppdeildum í Evrópu og í toppliðum vegna þess að flest lið eru með þrjá góða markverði og oft þrjá landsliðsmarkverði sem berjast um stöðuna. Ég er ekki að gera lítið úr dönsku úrvalsdeildinni. Hún er gríðarlega sterk og auðvitað er það betra fyrir okkur að hann sé að spila en mér finnst Hannes eiga meira skilið.

Tölfræðin í síðustu þremur undankeppnum hjá honum, frammistaðan gegn Argentínu og ummælin sem ég hef fengið frá kollegum mínum, sem eru með mér í nefnd hjá FIFA og eru hjá öðrum liðum, hafa hrósað honum og ekki síst fyrir stöðugleikann hjá honum. Markvarslan snýst um stöðugleika. Þetta er eins og einstaklingur með gott hjartalínurit. Hann gerir sjaldan mistök og hann er að vinna stigin fyrir okkur,“ sagði Guðmundur.

Þættir