Fékk loksins fararleyfi

ERLENT  | 10. July | 9:03 
Liu Xia, ekkja kínverska Nóbelsverðlaunahafans og andófsmannsins Liu Xiaobo, er farin frá Kína að sögn vina. Hún hefur setið í stofufangelsi í átta ár án ákæru.

Liu Xia, ekkja kínverska Nóbelsverðlaunahafans og andófsmannsins Liu Xiaobo, er farin frá Kína að sögn vina. Hún hefur setið í stofufangelsi í átta ár án ákæru. Liu Xiaobo lést fyrir ári úr lifrarkrabbameini en hann hafði setið í fangelsi frá árið 2009 dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir andóf og skrif sín gegn mannréttindabrotum stjórnvalda í Kína.

Liu Xia, sem er ljóðskáld, hefur verið undir miklu eftirliti stjórnvalda allt frá því eiginmaður hennar fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2010 við litla hrifningu ráðamanna í Peking.

Að sögn vina fór hún með flugi Finnair til Berlínar frá Helsinki og er væntanleg til borgarinnar síðar í dag.

Liu Xiaobo er einn af þeim sem tóku þátt í mótmælum á Tiananmen-torgi (torg hins himneska friðar) árið 1989 og var ötull baráttumaður fyrir mannréttindum í heimalandinu. Hann fékk ekki heimild til þess að fara úr landi til að taka við friðarverðlaunum í Ósló og var það í annað sinn í rúmlega 100 ára sögu verðlaun­anna sem ekki var hægt að veita þau. Áður var það er Carl von Ossietzky, rit­höf­und­ur er barðist gegn harðstjórn nas­ista Ad­olfs Hitlers, hreppti verðlaun­in. Liu varð fyrsti friðarverðlaunahafinn til þess að deyja í haldi yfirvalda frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Frétt

Þættir