Vonir dvínað um að fleiri finnist á lífi

ERLENT  | 11. July | 8:45 
Forsætisráðherra Japan, Shinzo Abe, hitti nýverið íbúa sem hafa þurft að flytjast brott af heimilum sínum vegna þeirra miklu flóða og aurskriðna sem geisað hafa undanfarnar vikur í vesturhluta Japan. Vonir um að fleiri finnist á lífi, viku eftir að úrhellið hófst, hafa dvínað.

Forsætisráðherra Japan, Shinzo Abe, hitti nýverið íbúa sem hafa þurft að flytjast brott af heimilum sínum vegna þeirra miklu flóða og aurskriðna sem geisað hafa undanfarnar vikur í vesturhluta Japan. 

Alls hafa nú 176 manns fundist látnir eft­ir flóðin en ekki hafa jafn­marg­ir far­ist þar í landi vegna veðurfars í meira en þrjá ára­tugi. Enn er tuga saknað. 

Forsætisráðherrann hitti nokkra af þeim tugþúsundum sem enn dvelja í flóttamannaathvörfum vegna hamfaranna í Okayama-héraðinu.

Ríkisstjórn landsins hefur tilkynnt að hún muni endurskoða hamfaraáætlanir í kjölfar flóðanna. „Á undanförnum árum höfum við séð eyðileggingar og skaða frá úrhellisrigningum sem eru mun verri en hér áður. Við þurfum að endurskoða hvað ríkisstjórnin getur gert til þess að draga úr þeirri hættu,“ segir talsmaður ríkisstjórnarinnar í samtali við AFP.

Vonir um að fleiri finnist á lífi, nú um viku eftir að úrhellið hófst, hafa dvínað. 

 

Íbúar svæðisins, sem þurft hafa að flýja heimili sín, gista nú ýmist í skólum eða öðrum athvörfum og margir sofa á þunnum bláum dýnum sem lagðar hafa verið á gólf íþróttahúsa. Margir hafa misst allt sitt, allt frá raftækjum til ljósmynda. 

„Við getum sætt okkur við að missa heimilistæki, en að missa minningar; við getum ekki fengið til baka myndir af dóttur okkar þegar hún var þriggja ára. Það er sárt að minningar okkar séu farnar,“ segir ein íbúanna, hin fertuga móðir Hiroko Fukuda, sem missti allt innbú sitt og fjölskyldu sinnar í flóðunum. 

Götur hafa breyst í flæðandi ár og öldur af aur hafa streymt niður hæðir og sópað bílum og trjám með sér.

Víða hafa verið gefnar út varúðaryfirlýsingar síðustu daga vegna flóðahættu og aurskriðuhættu, m.a. í Hiroshima, þar sem fólk hefur verið hvatt til þess að yfirgefa heimili sín. Eins hafa aðrar hættur stafað af þeim mikla hita sem er nú í vesturhluta Japan, en þar er um 35 gráðu hiti sem skapar hættu fyrir fjölda fólks sem býr í vanbúnu húsnæði án rafmagns og rennandi vatns. 

Þættir