Er Musk að missa það?

VIÐSKIPTI  | 17. July | 11:38 
Frumkvöðullinn Elon Musk hefur oftsinnis átt í orðaskaki á samfélagsmiðlum við greinendur á Wall Street, blaðamenn og fleiri. En síðasta hviða hans á þeim vettvangi, þar sem hann sakaði einn þeirra sem kom að björgun drengjanna í taílenska hellinum um barnaníð, hefur vakið upp ýmsar spurningar.

Frumkvöðullinn Elon Musk hefur oftsinnis átt í orðaskaki á samfélagsmiðlum við greinendur á Wall Street, blaðamenn og fleiri. En síðasta hviða hans á þeim vettvangi, þar sem hann sakaði einn þeirra sem kom að björgun drengjanna í taílenska hellinum um barnaníð, hefur vakið upp spurningar um leiðtogahæfni hans. Mörgum sýnist sem hann sé í miklu andlegu ójafnvægi.

Musk er fæddur í Suður-Afríku. Hann er stofnandi Tesla og SpaceX og er fyrir löngu orðinn milljarðamæringur. Hann hefur notið vinsælda og velvildar margra og því supu sumir hveljur er hann hóf að ráðast á breska kafarann og hellakönnuðurinn Vern Unsworth í röð tísta á dögunum. Unsworth hafði aðstoðað björgunarteymið á Taílandi við að kortleggja hellinn sem drengirnir og þjálfari þeirra voru innlyksa í og hafa stjórnendur aðgerða sagt innlegg hans ómissandi þátt í björgunarafrekinu.

Frétt mbl.is

Musk mætti á vettvang aðgerðanna og bauð fram lítinn kafbát, sem hafði verið sérsmíðaður til verksins, við að ná drengjunum út. Það var afþakkað og sagt að hann myndi ekki nýtast við þær aðstæður sem þar voru uppi.

Unsworth hafði sagt að Musk væri athyglissjúkur og væri á vettvangi sér til framdráttar. Áður en það komst hins vegar í hámæli hafði Musk látið ókvæðisorðum rigna yfir hann á Twitter. Skrifaði hann m.a. að Unsworth væri „barnaperra-gaur“ (pedoguy) þó að hann hafi síðar eytt því tísti.

 

Þeir sem þekkja til í stjórnun fyrirtækja telja hegðun Musk ekki samræmast starfi forstjóra stórfyrirtækis. Það sé í besta falli óviðeigandi hegðun.

„Elon Musk skemmdi vörumerkið meira með þessu en nokkru sinni áður,“ segir Roger Kay hjá greiningarfyrirtækinu Endpoint Technologies Associates.

Kay segir engu líkara en að Musk sé að reyna að feta í fótspor Donalds Trump Bandaríkjaforseta með því að nota Twitter til að fá útrás fyrir pirring og til að móðga alla þá sem honum líkar ekki við.

Hótar lögsókn

„Þetta var algjörlega ástæðulaust, það var engin þörf á þessu,“ segir Kay um árásir Musk á breska kafarann. Unsworth hefur nú hótað því að lögsækja Musk vegna ummælanna.

Hlutabréf í Tesla féllu um 2,75% eftir að Musk hellti sér yfir Unsworth. Rafbílaframleiðandinn er nú þegar að berjast við að ná settu marki fjárhagslega í tengslum við nýja kynslóð bíla sem verið er að koma á markað. 

„Musk er undir miklu álagi og við erum nú að sjá hann brotna undan því,“ segir Kay. „Hann hefur sofið í verksmiðjunni til að halda framleiðslunni gangandi og það hefur verið erfitt. En þegar hann talar við fjárfesta verður hann að fullvissa þá um að allir þeirra peningar eigi ekki eftir að tapast.“

 

Musk er af mörgum álitinn skapandi snillingur og hefur honum m.a. verið líkt við Steve Jobs, stofnanda Apple. 

Patrick Moorhead, greinandi og ráðgjafi hjá Moor Insights & Strategy, segir að ákveðin líkindi séu milli Musks og Jobs en nýjustu móðganir Musks skilja þá hins vegar að. „Steve Jobs fór aldrei á þessa braut,“ segir Moorhead. Til að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu þarf „Musk að gefa út risastóra afsökunarbeiðni“.

Hann segir að stjórnir Tesla, sem er á markaði, og SpaceX, sem er það ekki, þurfi að verja sig og gæta þess að Musk fari ekki enn frekar út af sporinu.

„Ef hann gerir hið rétta í stöðunni þá getur hann komist heill frá þessu,“ segir Moorhead. „Þetta eru Bandaríkin og allir elska sögu sem endar vel.“

Musk hefur verið mjög gagnrýninn á fjölmiðla og sakað þá um óheilindi. Hann hefur sagt þá hafa einbeitt sér of mikið að slysum sem tengjast sjálfkeyrandi bílum fyrirtækis hans og sagt þá eingöngu flytja neikvæðar fréttir af Tesla. Þá hefur hann sagt spurningar þeirra um fjárhagsstöðu fyrirtækisins „leiðinlegar“ og neitað að svara öðrum. 

Stendur ekki undir ábyrgðinni

Hegðun Musks er ekki viðeigandi fyrir forstjóra, segir Bob O'Donnell, stofnandi greiningarfyrirtækisins Technalysis Research. Hann segir að Musk sé af mörgum álitinn hetja en að honum hafi ekki tekist að axla þá ábyrgð.

„Hann elskar þá staðreynd að allt sem hann segir endi í fréttum en ef þú ert í þeirri stöðu þá verður þú að haga þér eins og fullorðin manneskja,“ segir O'Donnell. 

 

Trip Chowdhry hjá Global Equities Research segir að hegðun Musks sýni aðeins að hann sé mannlegur og breyti því ekki að hann er frábær uppfinningamaður. 

„Tesla er kynslóðum á undan öllu öðru sem er til í dag,“ segir hann og bendir á að líkt og aðrir mikilvægir uppfinningarmenn hafi Musk enga þolinmæði fyrir því sem truflar hann í því að ná settu marki. Þó að hann skorti almannatengslahæfileika margra annarra forstjóra þá verði uppfinningar Tesla mikilsmetnar í framtíðinni. „Að veðja gegn Tesla er ekki aðeins brjálæðislegt heldur algjör heimska.“

Þættir