Streymir úr báðum Skaftárkötlum

INNLENT  | 4. August | 19:50 
Vatn er tekið að streyma í Skaftá úr Vestri-Skaftárkatli. Hlaupið í Skaftá, sem hófst í fyrradag, hefur hingað til komið úr eystri katlinum, sem hefur sigið um rúma 70 metra en að sögn Huldu Rósar Helgadóttur náttúruvársérfræðings kemur oft fyrir að annar ketillinn hlaupi í kjölfar hins.

Vatn er tekið að streyma í Skaftá úr Vestri-Skaftárkatli. Hlaupið í Skaftá, sem hófst í fyrradag, hefur hingað til komið úr eystri katlinum, sem hefur sigið um rúma 70 metra en að sögn Huldu Rósar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni, kemur oft fyrir að annar ketillinn hlaupi í kjölfar hins. Hins vegar viti hún ekki til þess að vatn hafi áður runnið úr þeim samtímis.

Af þeim sökum hefur rennsli í ánni ekki enn náð hámarki, ólíkt því sem áður var talið. „Okkur fannst óvenjulegt hvernig vatnið hélt alltaf áfram að rísa,“ segir Hulda og segir að þá hafi vísindamenn farið að gruna að hinn ketillinn væri farinn að tæma sig.

Það fékkst hins vegar ekki staðfest fyrr en um klukkan sjö eftir að vísindamenn höfðu flogið yfir svæðið. Vestari ketillinn er ekki tæmdur en Hulda segir að ekki sé mikið í honum enda tæmdist síðast úr honum í fyrra.

 

 

Rennsli við Sveinstind mældist fyrr í dag 1.350 rúmmetrar á sekúndu, áður en Veðurstofan hætti að gefa út nákvæmar tölur um rennsli.

Var það gert vegna þess að rennslismælingin byggist á vatnshæðarmælingu, sem síðan er notuð til að reikna rúmmálið út frá farvegi árinnar. Þegar vatnið brýtur sér leið út fyrir farveginn verða þær mælingar hins vegar vanáætlaðar.

Titringur er eystri ketillinn tæmist

Skjálftamælar Veðurstofunnar hafa mælt titring á stöðvum í kringum sigkatlana og segir Hulda það benda til þess að eystri ketillinn sé að tæmast. „Þegar ketillinn tæmir sig léttir þrýstingnum af kerfinu og kemur suða fram, en hún birtist í titringi,“ segir Hulda, en suðumark vökva er í beinu hlutfalli við þrýsting og lækkar því þegar þrýstingur lækkar.

Enn bíða menn örlaga Eldvatnsbrúar. Rennslismæling var gerð um klukkan hálffimm og mældist vatnsflaumurinn 650 rúmmetrar á sekúndu. 

Jónas Erlendsson, fréttaritari Morgunblaðsins, er við brúna. Hann segir vatnshæðina þurfa að aukast töluvert til að ná að stöplum brúarinnar. Talið er að um 6-8 klukkustundir taki vatnið að berast frá upptökum í Sveinstindi að Eldvatnsbrúnni. Því er ljóst að hámarki við brúna verður að öllum líkindum ekki náð fyrr en upp undir morgun.

 

Þættir