Líkir ástandinu við strauminn yfir Miðjarðarhaf

ERLENT  | 24. ágúst | 23:38 
Það stefnir í ógöngur vegna vaxandi straums hælisleitenda frá Venesúela og segir flóttamannaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (IOM) að líkja megi ástandinu við flóttamannastrauminn yfir Miðjarðarhafið.

Það stefnir í ógöngur vegna vaxandi straums hælisleitenda frá Venesúela og segir flóttamannaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (IOM) að líkja megi ástandinu við flóttamannastrauminn yfir Miðjarðarhafið.

Sífellt fleiri flýja nú efnahagskreppuna og stjórnmálaumrót í Venesúela, en almenningur þar á í erfiðleikum með að afla sér matar og annarra lífsnauðsynja. Segir IOM ástandið nú ógna nágrannaríkjunum og munu fulltrúar Kólumbíu, Ekvador og Perú hittast í Bogota í næstu viku til að leita lausna.

Í Brasilíu hröktu óeirðaseggir fyrr í þessum mánuði hundruð Venesúelabúa aftur yfir landamærin.

Þá hafa yfirvöld í Perú tilkynnt að frá og með helginni krefjist þau gilds vegabréfs fyrir þá Venesúelabúa sem koma til landsins, í stað almennra skilríkja áður. Yfirvöld í Ekvador höfðu áður tekið upp sambærilega stefnu, en dómari úrskurðaði hana í dag ógilda.

Joe Millman, talsmaður IOM, sagði að líta megi á þessi viðbrögð sem viðvörunarmerki. Finna verði fjármagn og leiðir til að taka á flóttamannastrauminum.

„Það stefnir í sambærilegar hremmingar og við höfum séð verða annars staðar í heiminum, sérstaklega í löndunum við Miðjarðarhaf,“ hefur Reuters eftir Millman.

IOM og flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna UNHCR hvöttu í gær ríki Suður-Ameríku til að auðvelda Venesúelabúum aðkomu, en rúmlega 1,6 milljónir Venesúela hafa yfirgefið heimaland sitt frá 2015.

Edu­ar­do Sevilla, yf­ir­maður inn­flytj­enda­mála í Perú, sagði yfirvöld þar í landi gera undantekningu í vissum tilfellum, til að mynda fyrir foreldra með börn sem væru á leið að sameinast öðrum fjölskyldumeðlimum, fyrir ófrískar konur og þá sem væru alvarlega veikir.

Yfirvöld yrðu engu að síður vel á verði gagnvart þeim sem reyndu að sniðganga nýju reglurnar með því að sækja um hæli sem flóttamenn.

„Mun UNHCR gangast við ábyrgð ef sá einstaklingur fremur glæp,“ sagði Sevilla. „Okkar forgangur er að tryggja öryggi og innri ró með því að bera skýr kennsl á fólk.“

Judith Naranjo, dómari í Ekvador, nam í dag úr gildi lög sem kváðu svo á um að Venesúelabúar yrðu nú að hafa gilt vegabréf til að fá að komast inn í landi. Samkvæmt dómsúrskurðinum hafa stjórnvöld í landinu nú 45 daga frest til að koma með áætlun til að taka á straumi hælisleitenda.

Jorge Rodriguez, upplýsingamálaráðherra Venesúela, sagði í dag að nýr efnahagspakki stjórnvalda fæli í sér að tekið hefði verið á óðaverðbólgunni og að Venesúelabúar muni nú snúa heim á ný, en stjórnvöld hafa tekið fimm núll aftan af mynt landsins. Gagnrýnendur hafa hins vegar hafnað áætluninni sem ófullnægjandi.

Verðbólga í landinu mældist 82.000% í júlí og er búist við að hún verði komin í milljón prósent fyrir árslok.

Þættir