Eiga að sæta ákæru fyrir þjóðarmorð

ERLENT  | 27. ágúst | 9:03 
Rannsaka þarf æðstu ráðamenn búrmíska hersins vegna þjóðarmorðs í Rakhine-héraði og fyrir glæpi gegn mannkyninu á öðrum svæðum. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem byggir á hundruðum viðtala og er harðasta fordæming samtakanna á ofbeldinu gegn rohingjum til þessa.

Rannsaka þarf æðstu ráðamenn búrmíska hersins vegna þjóðarmorðs í Rakhine-héraði og fyrir glæpi gegn mannkyninu á öðrum svæðum. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem byggir á hundruðum viðtala og er harðasta fordæming samtakanna á ofbeldinu gegn rohingjum til þessa, að því er BBC greinir frá.

Eru aðgerðir hersins sagðar í „stöðugu og verulegu ósamræmi við raunverulega öryggisógn“, að því er segir í skýrslunni. Þar eru sex hátt settir yfirmenn í búrmíska hernum nefndir á nafn og sagt að rétta ætti yfir þeim. Þá er skýrslan einnig verulega gagnrýnin í garð Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma (Mijanmar), fyrir að stöðva ekki ofbeldið.

AFP-greindi frá því nú í morgun að Facebook hafi lokað á æðstu ráðamenn búrmíska hersins vegna mannréttindabrota þeirra.

 

 

Verði vísað til Alþjóðaglæpadómstólsins

Hvetja Sameinuðu þjóðirnar í skýrslunni til þess að málinu verði vísað til Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag.

Stjórnvöld í Búrma hafa ítrekað fullyrt að aðgerðir hersins beinist eingöngu gegn uppreisnarmönnum og ógn sem stafi af andófsmönnum.

Að sögn Sameinuðu þjóðanna er hins vegar „afneitunin gegn glæpunum sögð átakanleg, sem og að þeir teljist hluti af eðlilegu ástandi og refsileysið sem fylgi þeim“.

„Hernaðarnauðsyn réttlætir aldrei dráp án aðgreiningar, hópnauðgun kvenna, árásir á börn og að heilu þorpin séu brennd til grunna,“ segir í skýrslunni.

Vinna óháðrar alþjóðlegrar nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna við gerð skýrslunnar hófst í mars í fyrra og var henni falið að rannsaka víðtækar ásakanir um mannréttindabrot í Búrma, ekki hvað síst í Rakhine-héraði. Þetta var áður en búrmíski herinn hóf umfangsmiklar hernaðaraðgerðir í Rakhine í ágúst 2017, eftir mannskæðar árásir uppreisnarmanna rohingja.

Rúmlega 700.000 rohingjar hafa flúið Búrma í ofbeldisaðgerðunum sem fylgdu í kjölfarið.

 

 

Óumflýjanleg afleiðing kerfisbundinnar kúgunar

Í skýrslunni kemur fram að stefnt hafi í þetta „hörmungarástand áratugum saman“ og að þetta séu óumflýjanlegar afleiðingar „alvarlegrar, kerfis- og stofnanabundinnar kúgunar frá vöggu til grafar“.

Glæpirnir sem fjallað er um í skýrslunni voru framdir í Kachin-, Shan- og Rakhine-héruðum og ná yfir morð, fangelsun, pyndingar, nauðganir, kynferðislega ánauð, ofsóknir og þrælahald sem „án efa teljist til hinna alvarlegustu glæpa samkvæmt alþjóðalögum“.

Þá fundust einnig dæmi um útrýmingu og brottflutning „svipað að eðli, alvarleika og umfangi og það sem hefur talist til þjóðarmorðs í öðru samhengi“.

Sameinuðu þjóðunum var ekki heimilað að senda fulltrúa sína til Búrma vegna skýrslugerðarinnar, en höfundar segja niðurstöðuna byggja á frumgögnum á borð við frásagnir vitna, myndir úr gervihnöttum, ljósmyndir og myndbönd. Þá hafa samtökin áður lýst aðgerðum hersins í Rakhine sem „skólabótardæmi um þjóðernishreinsanir“.

Hjálparsamtökin Læknar án landmæra segja að minnsta kosti 6.700 rohingja, þar af að minnsta kosti 730 börn undir 5 ára aldri, hafa verið drepna fyrsta mánuðinn eftir að herinn hóf aðgerðir sínar.

Samkvæmt rannsókn sem búrmíski herinn framkvæmdi á eigin gjörðum í Búrma ber herinn enga ábyrgð á rohingja-deilunni.

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa hins vegar lengi hvatt til þess að æðstu ráðamenn landsins verði dæmdir fyrir glæpi gegn mannkyninu vegna rohingja-deilunnar.

Þættir