Aðeins öðruvísi Airwaves

FÓLKIÐ  | 30. October | 16:04 
Airwaves-hátíðin verður haldin í tuttugasta skipti í næstu viku. Nú er hátíðin í höndum nýrra rekstraraðila sem lofa sama stuðinu en einhverjar áherslubreytingar verða líka þar sem fleiri viðburðir verða yfir daginn sem eingöngu verða í boði fyrir miðahafa.

Airwaves-hátíðin verður haldin í tuttugasta skipti í næstu viku. Nú er hátíðin í höndum nýrra rekstraraðila og verður áhugavert að sjá hvernig til tekst. Tónleikarnir verða sem fyrr fjölmargir og eru í þetta sinn haldnir á fjórtán tónleikastöðum. 

Sindri Ástmarsson, dagskrárstjóri hátíðarinnar, segir hana að mestu vera með sama sniði og áður. Þrátt fyrir það eru einhverjar nýjungar og breytingar. Armböndin veita nú t.a.m. aðgang að öllum viðburðum hátíðarinnar og þá er einnig reynt að hafa meiri dagskrá fyrir miðahafa yfir daginn. Hann segir einnig aukna áherslu á að nýta hátíðina sem kynningu fyrir íslenskar hljómsveitir sem séu virkar.

Rætt er við Sindra í meðfylgjandi myndskeiði.

„Við erum að vinna með alls konar listamönnum til að gera skemmtilega viðburði á daginn. Það er allt frá morgun-reifi í Iðnó þar sem DJ Margeir og fleiri ætla að skemmta yfir í skemmtilega viðburði með Ásgeiri Trausta og mörgum fleirum,“ segir Sindri og vísar til þess að Ásgeir, Axel Flóvent, Júníus Meyvant, JFDR, aYia, Charles Watson, Hilang Child, Bríet og hljómsveitin Between Mountains munu taka upp lög beint á vínyl-plötur og þeir gestir sem mæta í Hljóðrita í Hafnarfirði munu eiga möguleika á að eignast þær einstöku upptökur. 

Engir stórir tónleikar verða á sunnudagskvöldinu líkt og hefur verið síðustu ár en búið er að bæta við Flóa í Hörpu á föstudags og laugardagskvöldinu. Þar er uppgefið að 1.000 manns geti verið á tónleikunum og eitt stærsta erlenda atriðið, bandaríski hip-hop-arinn Blood Orange, kemur þar fram á laugardeginum en á föstudeginum verður Vök, eitt þekktasta íslenska atriði hátíðarinnar, þar. 

Allt í allt verður boðið upp á nærri 240 tónlistaratriði á hátíðinni sem verður líkt og fyrri ár alþjóðleg en atriðin koma frá 25 löndum. Það er því ekki seinna vænna en að renna yfir þá listamenn sem koma fram hátíðinni og reyna að setja saman áætlun fyrir næstu viku. Í lagalistanum hér fyrir neðan er að finna lög með þeim sem koma fram. Þá er búið að setja dagskrá hátíðarinnar á vefinn.

 

 

Þættir