Vampírustyttan komin heim

FÓLKIÐ  | 19. November | 19:48 
Myndarleg stytta af Barða Jóhannssyni, tónlistarmanni, sem nú er til sýnis á Rokksafni Íslands var afhjúpuð á föstudag. Þar sést Barði munda gerðarlegan hníf með lítinn rakka í ól sér við hlið en hann er með andlit Barða og blóðugar vígtennur. Hugmyndin kom frá Barða sjálfum.

Myndarleg stytta af Barða Jóhannssyni, tónlistarmanni sem yfirleitt er kenndur við hljómsveitina Bang Gang, er nú til sýnis á Rokksafni Íslands og var afhjúpuð á föstudag. Þar sést Barði munda gerðarlegan hníf með lítinn rakka í ól sér við hlið en hann er með andlit Barða og blóðugar vígtennur.

Hugmyndin kom frá Barða sjálfum fyrir fjórtán árum síðan þegar haft var samband við hann af forsvarsmönnum Triennale, hönnunarsafnsins í Mílanó á Ítalíu. Lagt var upp með að fá skapandi fólk úr ólíkum starfsstéttum til að hanna föt. Fötin yrðu svo saumuð á styttur af hönnuðunum.

„Teikningin var miðuð að því sem mér finnst skemmtilegt, sem eru hryllingsmyndir og vampírur,“ segir Barði um upphaflegu teikninguna sem hann sendi til Ítalíu. „Og náttúrulega matargerð, það er klárt mál að þarna er stór matargerðarhnífur og þarna er eflaust verið að fara að matreiða sushi fyrir hundinn.“

Á sínum tíma fór Barði á tískuvikuna í sömu borg til að vera viðstaddur sýningu á afrakstrinum sem var heilmikill viðburður. Nú er styttan hinsvegar komin á Rokksafnið í Reykjanesbæ þar sem hún fær að standa um ókomna tíð og mbl.is kíkti á herlegheitin og spjallaði við Barða um styttuna góðu.

Tímamót hjá Bang Gang

Barði og Bang Gang eru einnig hluti af nýrri og glæsilegri gagnvirkri sýningu sem er til sýnis á Rokksafninu þar sem hægt er að skoða sögu og verk sveitarinnar ásamt öðrum verkefnum úr smiðju Barða.

Á þessu ári eru ákveðin tímamót hjá Barða og Bang Gang því tuttugu ár eru liðin frá því að fyrsta platan, You, kom út, fimmtán ár eru frá útgáfu Something Wrong og Ghosts from the Past er tíu ára. Að því tilefni verða gefin út 3 myndbönd við lög af hverri skífu sem tengjast einnig innbyrðis.

 

Þættir