Sully fylgdi Bush til Washington

ERLENT  | 5. December | 8:59 
Forseti Bandaríkjanna á að hafa sagt eitt sinn að auðveldasta leiðin til þess að eignast vini í Washington væri að eignast hund. Á mánudaginn fylgdi Sully, hundur George H.W. Bush, eiganda sínum til Washington þar sem sá síðarnefndi var lagður til hinstu hvílu.

Forseti Bandaríkjanna á að hafa sagt eitt sinn að auðveldasta leiðin til þess að eignast vini í Washington væri að eignast hund. Á mánudaginn fylgdi Sully, hundur George H.W. Bush, eiganda sínum til Washington þar sem sá síðarnefndi var lagður til hinstu hvílu.

Tveimur dögum eftir andlát Bush birti talsmaður fjölskyldunnar, Jim McGrath, mynd á samfélagsmiðlum af Sully, sem er ljós labrador retriever, þar sem hann lá fyrir framan líkkistu Bush. Textinn sem fylgdi var eftirfarandi: Verkefni lokið undir myllumerkinu  #Remembering41.

Frétt mbl.is

Sully, sem er tveggja ára gamall, hefur verið við hlið Bush frá því í júní eða frá því nokkrum vikum eftir fráfall eiginkonu hans Barbara en þau höfðu eytt síðustu 73 árum saman. 

Sonur Bush eldri, George W. Bush, hefur birt mynd á Instagram af Sully með þeim skilaboðum að hundurinn verði fluttur til hersjúkrahússins Walter Reed í úthverfi Maryland. Segist hann ekki efast um að Sully muni gleða nýja eigendur jafn mikið og Bush-fjölskylduna. 

Sully fékk nafnið frá flugmanninum Chesley „Sully“ Sullenberger III, sem vakti heimsathygli er hann lenti laskaðri farþegaþotu á Hudson-ánni í New York árið 2009. 

Sagnfræðingar telja að Harry S. Truman, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi aldrei látið ummælin falla sem honum eru eignuð um vináttu í höfuðborginni enda var hann ekki einu sinni hrifinn af hundum.

En AFP-fréttastofan er sannfærð um að hann hefði orðið hrifinn af Sully sem hefur unnið hug og hjörtu allra. Alls er Sully með 123 þúsund fylgjendur á Instagram en þar hefur verið hægt að fylgjast með lífi þeirra Bush saman undanfarna mánuði á ættaróðalinu í Kennebunkport, Maine.

Má þar sjá mynd af Sully liggjandi fyrir framan Bush og Bill Clinton en þeir voru miklir og góðir vinir. Bush fékk Sully hjá samtökum sem nefnast America's VetDogs.

Þættir