Krefst peninga en ekki neyðarástand

ERLENT  | 9. janúar | 6:13 
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hvikar hvergi frá kröfu sinni um fjármagn til þess að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó svo hægt sé að stöðva vaxandi mannúðar- og öryggisvanda.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hvikar hvergi frá kröfu sinni um fjármagn til þess að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó svo hægt sé að stöðva vaxandi mannúðar- og öryggisvanda. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrsta sjónvarpsávarpi forsetans frá forsetaskrifstofunni í nótt. 

En Trump lýsti ekki yfir neyðarástandi líkt og talið var mögulegt en með því hefði hann getað komist fram hjá þinginu og byggt múrinn án fjárheimildar þingsins.

Leiðtogar demókrata sökuðu Trump um að halda bandarísku þjóðinni í gíslingu að loknu ávarpi forsetans. Mjög er tekist á um fjármögnun múrsins og hafa ríkisstofnanir verið lokaðar vegna þessa í átján daga.

Trump hefur farið fram á 5,7 milljarða Bandaríkjadala til þess að fjármagna byggingu stálþils á landamærunum en þetta er eitt af kosningaloforðum forsetans. En demókratar, sem nýverið náðu meirihlutanum í fulltrúadeildinni, eru einarðir í andstöðu sinni við áætlanir Trumps. Þetta þýðir að fjórðungur ríkisstofnana er lokaður og hafa því hundruð þúsunda ríkisstarfsmanna ekki fengið greidd laun í 18 daga. Aðeins einu sinni áður hefur ríkisstofnunum verið lokað jafn lengi í Bandaríkjunum. 

Ávarp Trumps varði í átta mínútur og var það sýnt á öllum helstu sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna. Hann sakaði demókrata um að bera ábyrgð á lokun stofnana.

Að hans sögn kemur 90% af öllu heróíni sem selt er í Bandaríkjunum frá Mexíkó þrátt fyrir að gögn bandarískra yfirvalda sýni að nánast allt heróín sem kemur til landsins komi þangað með bifreiðum og öðrum samgöngutækjum sem koma til landsins með löglegum hætti. 

Trump segir að í hverri viku deyi 300 Bandaríkjamenn úr ofskömmtun heróíns og samkvæmt tölum frá bandarískum yfirvöldum létust 15.482 úr ofskömmtun lyfja í Bandaríkjunum árið 2017. Stór hluti af því heróíni, allt að 86%, kemur frá Mexíkó. 

Frétt BBC

Frétt CNN

 

Þættir