Prinsessa stefnir á forsætisráðherrastól

ERLENT  | 8. febrúar | 10:22 
Ubolratana Mahidol prinsessa, systir konungsins í Taílandi, hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti forsætisráðherra landsins. Þetta er í fyrsta skipti sem einhver úr konungsfjölskyldunni hefur afskipti af stjórnmálum, en hefð hefur verið fyrir því að konungsfjölskyldan komi hvergi nálægt pólitíkinni.

Ubolratana Mahidol prinsessa, systir konungsins í Taílandi, hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti forsætisráðherra landsins. Þetta er í fyrsta skipti sem einhver úr konungsfjölskyldunni hefur afskipti af stjórnmálum, en hefð hefur verið fyrir því að konungsfjölskyldan komi hvergi nálægt pólitíkinni.

Mahidol, sem er 67 ára, hyggst bjóða sig fram fyrir flokkinn Thai Raksa Chart sem er í bandalagi með Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra.

Þingkosningar fara fram í landinu 24. mars næstkomandi og verða þær fyrstu síðan her­inn steypti rík­is­stjórn Yingluck Shinawatra af stóli árið 2014 og tók völd­in í land­inu.

Frétt mbl.is

Mahidol, eða Ubolratana Rajakanya Sirivadhana Barnavadi, er elsta dóttir Bhumibol Adulyadej, konungsins í Taílandi, en hann lést árið 2016.

Mahidol tók sér hlé frá konunglegum skyldum árið 1972 þegar hún giftist Bandaríkjamanni og flutti til Bandaríkjanna. Hún skildi nokkrum árum seinna og sneri til baka í konungshöllina. Hún á þrjú börn, en eitt þeirra lést í flóðbylgjunni sem gekk yfir landið árið 2004. Hin börnin hennar tvö eru búsett í Taílandi.

Prinsessan nýtur mikilla vinsælda í landinu, er virk á samfélagsmiðlum og hefur leikið í nokkrum taílenskum kvikmyndum.

 

Þættir