Of veikburða til að gráta

ERLENT  | 9. febrúar | 10:20 
Hver mínúta skiptir máli þegar börn eru orðin alvarlega vannærð en stundum er ekki annað í boði en að bíða þegar þú ert á flótta. Yaqin, þriggja mánaða, er við dauðans dyr og í stað þess að þyngjast þá léttist hún bara. „Ég óttast um hana,“ segir móðir hennar en Yaqin er of veikburða til að gráta.

Þau lifðu af yfirráð vígasamtakanna Ríki íslams en óvíst er hver framtíð þessara barna, sem ekki eru annað en skinn og bein, verður í Al-Hol flóttamannabúðunum í norðausturhluta Sýrlands. Kapphlaup þeirra við vannæringu er hafið og ekki sér fyrir endann á því. 

Al-Hol búðirnar eru yfirfullar af konum og börnum sem hafa flúið frá Euphrates-dalnum, síðasta vígi Ríkis íslams. Á fimmtudagskvöldið komu um 200 konur og börn þaðan í Al-Hol búðirnar.

 

„Þau eru bara skinn og bein þegar þau koma hingað,“ segir Antar Senno barnalæknir sem starfar í búðunum á vegum kúrdíska Rauða krossins.

Senno segir að fólið hafi búið við skelfilegar aðstæður á litlu svæði skammt frá bænum Baghouz sem er skammt frá landamærum Íraks. Þau hafi fengið lítið að borða, vatn var af skornum skammti sem og lyf.

Þegar fréttamenn AFP voru í búðunum á fimmtudag og föstudag fylgdust þeir með starfsmönnum Rauða krossins skoða börnin en kannað er hvort þau þjáist af vannæringu og öðrum sjúkdómum. Ef svo er þá eru þau send með hraði á sjúkrahús næstu borgar. Undanfarnar vikur hafa yfir 25 þúsund manns komið í búðirnar og því ekki hægt að veita öllum þeim sem þess þurfa annað en lágmarks læknisaðstoð. 

 

Snýst um mínútur

Vannærð börn eru send á sjúkrahús í borginni Hasakeh en það er klukkutíma ferðalag með sjúkrabíl. Klukkutími sem getur skipt sköpum. „Þau eru við dauðans dyr þegar þau komast þangað en ef við náum að grípa inn strax og getum sent þau strax af stað með sjúkrabíl til Haskeh þá getum við bjargað lífi þeirra. Þetta snýst ekki um klukkustundir heldur mínútur, segir Senno. 

Yfir 37 þúsund manns hafa flúið Deir Ezzor-hérað sem hefur verið undir stjórn Ríkis íslams en Sýrlensku lýðræðissveitirnar, með stuðningi Bandaríkjamanna, hafa hrakið vígamennina á brott þaðan. Margir íbúanna þurfa að ganga dögum saman í eyðimörkinni til þess að komast í móttökumiðstöð Sýrlensku lýðræðisvaktarinnar. Þar fá þeir eitthvað að borða og drekka en síðan tekur við langt ferðalag með flutningabílum í Al-Hol búðirnar.

Eyðimerkurgangan reynist mörgum dýrkeypt en að minnsta kosti 35 nýburar og smábörn hafa látist á þeirri leið undanfarna daga, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 

Einn starfsmanna Al-Hol sem fréttamaður AFP ræddi við segir að hann hafi horft á mæður hrynja af vörubílspöllum með börn sín í fanginu. Án þess að vita að börnin þeirra hafi látist á leiðinni. 

 

Ahmad, sem er þriggja mánaða gamall, var einn þeirra sem var við dauðans dyr, segir móðir hans, Istabraq. „Ég var með hann á brjósti þegar við vorum í Baghouz en það var ekki nóg,“ segir Istabraq sem er 22 ára gömul. Þau flúðu fyrir 20 dögum síðan og komust til Al-Hol. 

„Ástand hans var mjög slæmt þannig að það var farið með hann beint úr móttökumiðstöðinni á sjúkrahús,“ segir Istabraq þegar fréttmenn ræða við hana í tjaldi hennar í flóttamannabúðunum. Hún fékk að fara með honum á sjúkrahúsið en var send þaðan sama dag í búðirnar og hefur ekki fengið að hitta barnið sitt síðan þá.

 

Yfirvöld segja að þau hafi þurft að setja mjög harðar öryggisreglur í Al-Hol af ótta við að vígamenn geti reynt að dulbúast og koma þangað sem flóttamenn. „Ef þeir myndu hleypa mér út. Ég vil bara gefa honum brjóst,“ segir Istabraq.

Alvarleg vannæring (Severe acute malnutrition) getur verið banvæn fyrir börn, sérstaklega ungabörn. Í Sýrlandi eru 18.700 börn yngri en fimm ára með alvarlega vannæringu, samkvæmt Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme). 

Starfsmenn Rauða krossins hafa tekið á móti tugum barna sem alvarlega vannæringu í Al-Hol. Börnin hafa verið flutt á sjúkrahúsið í Hasakeh og nú eru þar 29 börn sem þjást af alvarlegri vannæringu. 

En ungabörn geta orðið vannærð eftir komuna til Al-Hol segja stjórnendur Mar Ephraem. læknasamtaka sem starfa á heilsugæslu barna í Al-Hol.

 

Á fimmtudaginn streymdu þangað mæður með grindhoruð börn sín til skoðunar. Ef börnin eru með þrálátan niðurgang og ofþornun eru þau send á sjúkrahúsið um leið. „Það er gríðarlega mikilvægt að grípa strax inn. Ef þú ert klukkutíma of seint þá getur það skipt sköpum fyrir barn sem er vannært,“ segir Marah al-Sheikhi, hjúkrunarfræðingur sem starfar á heilsugæslu barna í Al-Hol. 

Þann dag var eitt barn flutt með skyndingu á bráðamóttökuna á sjúkrahúsinu. Yaqin, sem er þriggja mánaða gömul, kom til Al-Hol með móður sinni, Shamaa, rúmri viku áður.

„Við höfum verið hér í tíu daga en hún léttist bara. Hún er með niðurgang og kastar upp,“ segir Shamaa sem er 23 ára þar sem hún bíður eftir sjúkrabílnum sem á að flytja dóttur hennar á sjúkrahúsið í Hasakeh. „Ég óttast um hana,“ segir hún og heldur þéttingsfast utan um dóttur sína sem er svo máttvana að hún getur ekki grátið.

 

Þættir