Verður aldrei nefndur á nafn

ERLENT  | 19. March | 6:32 
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, hefur heitið því að hún muni aldrei nefna árásarmanninn í Christchurch á nafn. Því eitt af mörgu sem hann ætlaði sér með hryðjuverkunum var að skapa sér orðstír.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, hefur heitið því að hún muni aldrei nefna árásarmanninn í Christchurch á nafn. Því eitt af mörgu sem hann ætlaði sér með hryðjuverkunum var að skapa sér orðstír. Hún ætli því ekki að nefna hann með nafni. Þetta kom fram í ræðu sem hún flutti á þinginu í dag. 50 létust í árásinni á föstudag og hefur árásarmaðurinn verið ákærður fyrir morð. 

„Ég sárbæni ykkur um að nefna frekar nöfn þeirra sem létust í stað mannsins sem tók líf þeirra. Hann er hryðjuverkamaður. Hann er glæpamaður. Hann er öfgasinni. En hann mun, þegar ég tala, vera nafnlaus,“ sagði Ardern.

Á sérstökum þingfundi í dag ávarpaði Arderm þingheim á arabísku: „Al-Salaam Alaikum“ sem þýðir friður sé með yður.

Hún hvetur samfélagsmiðla til þess að gera meira til þess að verjast hryðjuverkum en vígamaðurinn streymdi árásinni beint á Facebook.

„Við getum ekki bara hallað okkur aftur í sætum okkar og látið sem þessir miðlar séu ekki til og að það sem þar er sagt sé ekki á ábyrgð miðlanna þar sem það er birt,“ segir hún. „Þeir eru útgefendur. Ekki bara póstburðarmenn. Þeir geta ekki bara hirt hagnaðinn án þess að taka ábyrgð,“ sagði Arderm. 

Forsætisráðherra hét þingheimi að árásarmaðurinn hlyti dóm og bað Nýsjálendinga um að virða sorg múslima við föstudagsbænir. Viku eftir árásirnar. 

Samkvæmt íslamstrú á að hreinsa og grafa lík eins fljótt og auðið er eftir andlát en vegna þess hversu réttarmeinarannsóknin hefur tekið langan tíma hefur ekki verið hægt að afhenda fjölskyldum líkin enn þá. 

Einhver þeirra voru þvegin og undirbúin að hætti múslima í gær og tóku sjálfboðaliðar víða að þátt í því. Útlendingastofnun Nýja-Sjálands er að undirbúa að veita fjölskyldum þeirra sem létust vegabréfsáritanir svo þær geti verið viðstaddar útfarir þeirra. 

Meðal þeirra sem létust voru flóttamenn og innflytjendur frá fjölmörgum löndum. Svo sem Pakistan, Bangladess, Indlandi, Tyrklandi, Kúveit og Sómalíu. 

Frétt BBC

Þættir