Getið dæmt okkur af þessum leikjum

ÍÞRÓTTIR  | 20. March | 11:10 
„Persónulega hef ég ekkert rosalega miklar áhyggjur af þessu,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson um þá löngu hrinu leikja íslenska liðsins án sigurs sem vonir standa til að ljúki á föstudagskvöld þegar Ísland mætir Andorra ytra í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2020.

„Persónulega hef ég ekkert rosalega miklar áhyggjur af þessu,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson um þá löngu hrinu leikja íslenska liðsins án sigurs sem vonir standa til að ljúki á föstudagskvöld þegar Ísland mætir Andorra ytra í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2020.

Ísland lék við mörg heimsklassalið á síðasta ári en Gylfi og flestir félagar hans í landsliðshópnum núna hafa ekki fagnað sigri í landsliðsbúningnum síðan gegn Kósóvó í lokaumferð undankeppni HM, í október 2017. Liðið mátti sín lítils í baráttu við Belgíu og Sviss í Þjóðadeildinni í fyrrahaust:

„Ég hef sagt það áður að það hefur vantað heilmikið af lykilleikmönnum hjá okkur og eins og er þá höfum við ekki efni á því að tapa mörgum leikmönnum í hverjum einasta leik. Sem betur fer er ný keppni að byrja og þið getið dæmt okkur af þessum leikjum,“ sagði Gylfi fyrir æfingu í Peralada í dag, daginn áður en íslenski hópurinn heldur til Andorra og byrjar þar nýja undankeppni á föstudaginn. Stefnan er sett á að komast á þriðja stórmótið í röð:

„Já, við erum flestir á besta aldri, í kringum 28-30 ára. Möguleikinn á að komast á fleiri stórmót er auðvitað til staðar og metnaðurinn hjá flestum er að upplifa sömu augnablik og við höfum gert síðustu ár. Ég held að hungrið sé algjörlega enn til staðar,“ sagði Gylfi.

Erfitt að spila á móti þeim

 

Andorra er í 132. sæti styrkleikalista FIFA og mun lægra skrifaður andstæðingur en Ísland hefur mætt síðustu misseri:

„Við höfum auðvitað verið að spila á móti stórum þjóðum síðustu þrjú ár en þetta er fótboltaleikur og við þurfum að búa okkur vel undir hann. Við vitum að ef við vanmetum andstæðinginn eða höldum að þetta verði létt þá getur þetta orðið mjög erfitt. Það er erfitt að spila á móti þeim, sérstaklega hérna á gervigrasinu. Við þurfum að byrja leikinn af krafti og vonandi skorum við sem fyrst,“ sagði Gylfi, og tók undir að um „skyldusigur“ væri að ræða gegn Andorra:

„Ég held að við getum alveg sagt það. Draumurinn er náttúrulega að fara í úrslitakeppnina og í leikjunum við Andorra þurfum við þá að taka sex stig.“

Upp og niður hjá liðinu en mér gengið ágætlega

Gylfi hefur leikið vel fyrir Everton í vetur og aldrei skorað fleiri mörk á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni, en hann er nú þegar kominn með 12 mörk. Þá sló hann markamet Eiðs Smára Guðjohnsen fyrr á þessu ári og er nú markahæsti Íslendingurinn sem spilað hefur í ensku úrvalsdeildinni:

„Auðvitað er ég búinn að bíða eftir því í smátíma að ná þessu meti en ég held ég hafi nú ekkert fagnað því þannig séð,“ sagði Gylfi, og bætti við: „Þetta er búið að vera upp og niður tímabil hjá liðinu. Við spiluðum til dæmis vel á móti Liverpool, og svo gegn Chelsea sérstaklega í seinni hálfleik. Svo erum við 2:0 yfir gegn Newcastle og 20 mínútur eftir en töpuðum leiknum. Þetta er búið að vera upp og niður í allan vetur. En mjög fínt fyrir mig persónulega, mér líður vel og er búið að ganga ágætlega. Mér líður mjög vel með þjálfarann og finn fyrir miklu trausti frá honum. Það er mjög gott að vinna með honum og allt öðruvísi að fá að spila allt tímabilið inni á miðri miðjunni.“

Þættir