Kom nýr andi með breytingunum

ÍÞRÓTTIR  | 20. mars | 12:05 
„Það verður gaman að liðið geti loksins farið að sýna sitt rétta andlit aftur,“ segir Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, fyrir fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2020 en Ísland mætir Andorra á gervigrasinu í Andorra la Vella á föstudagskvöld.

„Það verður gaman að liðið geti loksins farið að sýna sitt rétta andlit aftur,“ segir Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, fyrir fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2020 en Ísland mætir Andorra á gervigrasinu í Andorra la Vella á föstudagskvöld.

„Þetta verður bara hörkuleikur. Við þurfum að búast við sterkri mótspyrnu og vera allir tilbúnir. Að sjálfsögðu þurfum við að vinna þessa leiki sem við „eigum að vinna“, miðað við stöðu á heimslista, því ef við vinnum ekki þessa leiki og töpum stigum á móti stóru þjóðunum þá lendum við í basli,“ segir Ragnar og tekur undir að verkefnið fram undan sé talsvert ólíkt leikjum síðasta árs þegar Ísland mætti aðallega landsliðum úr hópi þeirra 20 bestu í heimi:

„Jú, örugglega, en ég held að það geri þetta ekkert auðveldara. Maður þarf að mótivera sig í þessa leiki líka og ég held að þetta verði ekki auðvelt.“

Ragnar hugðist hætta í landsliðinu eftir HM í Rússlandi í fyrra en snerist hugur og viljinn til að komast á þriðja stórmótið í röð er til staðar, nú undir stjórn Svíans Erik Hamrén sem tók við landsliðinu í fyrrahaust.

„Það er mikið hungur núna. Það kom nýr andi og nýtt „motivation“ með þessum breytingum sem voru gerðar. Við höfum ekki náð úrslitum núna undanfarið og erum hungraðir í að sýna hvað í okkur býr,“ segir Ragnar.

Skipta stundum um lið eins og nærbuxur

Ragnar leikur með Rostov sem er í 6. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar og vann 2:0-útisigur á Rubin Kazan um síðustu helgi. Ragnar er þar liðsfélagi Björns Bergmanns Sigurðarsonar en þeir hafa horft á eftir Sverri Inga Ingasyni og Viðari Erni Kjartanssyni til annarra félaga á þessu ári.

„Auðvitað var gaman að vera þarna fjórir saman en svona er boltinn. Menn skipta um lið, stundum eins og nærbuxur. Núna erum við Björn eftir, Viðar fór reyndar bara á láni og við sjáum til hvort hann kemur aftur. Mér líður mjög vel hjá félaginu en maður veit aldrei hvað gerist í boltanum. Okkur gengur ágætlega núna og ég ætla að njóta þess á meðan svo er,“ segir Ragnar.

Þættir