Sameinast gegn hatursorðræðu

ERLENT  | 22. March | 10:31 
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, hvetur til þess að þjóðir heims sameinist í baráttunni gegn hatursorðræðu. Hvort sem hún er í garð múslima eða gyðinga. Undir þetta taka leiðtogar fleiri múslímaríkja. Erdoğan hrósar forseta Nýja-Sjálands fyrir viðbrögð í kjölfar hryðjuverka þar í landi.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, hvetur til þess að þjóðir heims sameinist í baráttunni gegn hatursorðræðu. Hvort sem hún er í garð múslima eða gyðinga. Undir þetta taka leiðtogar fleiri múslímaríkja. Erdoğan hrósar forseta Nýja-Sjálands fyrir viðbrögð í kjölfar hryðjuverka þar í landi. 

Erdoğan segir að árásirnar í Chrictchurch, þar sem 50 létust, séu árás á íslam og hvetur vestræn ríki til þess að gera meira til að koma í veg fyrir hatur í garð múslíma. Líkt og gert var í kjölfar helfararinnar. Að mannúð verði höfð að leiðarljósi í garð múslíma líkt og eðlilega var gert í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar í garð gyðinga. 

„Nú stöndum við frammi fyrir íslamófóbíu og hatri á múslímum,“ sagði hann. Að sögn Erdoğan er eðlilegt að komið sé fram við samtök nýnasista og samtökin Ríki íslam. Sem hryðjuverkasamtök. 

 

Líkt og fram kom í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í gær þá skaut 28 ára ástralskur þjóðernisöfgamaður 50 manns til bana í moskum í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi. Hann er heltekinn af baráttu kristinna manna og múslíma fyrr á öldum og honum  umhugað um að vekja aðdáun annarra þjóðernissinna á samfélagsmiðlum.

Hryðjuverkamaðurinn ólst upp í Grafton, um 18.000 manna bæ í fylkinu Nýja Suður-Wales í Ástralíu. Langflestir bæjarbúanna eru hvítir, afkomendur Evrópumanna sem settust að í landinu. Um 30% íbúanna eru yfir sextugu og atvinnulífinu í bænum hefur hnignað vegna þess að atvinnurekendur hafa smám saman flutt fyrirtæki sín til stærri bæja eða borga við ströndina. Mikið atvinnuleysi er því meðal ungra íbúa bæjarins og hnignunin hefur leitt til vandamála á borð við fíkniefnaneyslu og sjálfsvíg, að sögn bæjarstjóra Grafton.

 

Eftir að hryðjuverkamaðurinn lauk námi í miðskóla starfaði hann við þjálfun í íþróttahúsi í bænum í nokkra mánuði þar til faðir hans lést úr krabbameini árið 2010. Seinna lýsti hann Grafton sem „smáskítlegum bæ“ á samfélagsmiðlum og óskaði eftir ráðleggingum um hvernig hann ætti að ávaxta arfinn eftir föður sinn. Hann kvaðst hafa hug á að ganga í herinn eða stofna vefsíðu fyrir fylgdarþjónustu og vændi. „Ég mun alltaf velja það starf sem gerir mér kleift að þéna eins mikið og mögulegt er á sem skemmstum tíma,“ sagði hann í einni af færslum sínum á samfélagsmiðlunum á þessum tíma.

 

Ekki er vitað hvenær hann fékk áhuga á átökum kristinna þjóða og múslíma fyrr á öldum. Hann fór til Grikklands og Tyrklands árið 2016 og vikuna eftir jólin það ár fór hann til Serbíu, þar sem hann skoðaði staði þar sem kristnir Serbar börðust gegn Tyrkjaveldi. Þaðan fór hann til Svartfjallalands, þar sem hann skoðaði m.a. klaustur sem varð fyrir árás hers Tyrkjaveldis á sjöunda áratug nítjándu aldar. Hann fór síðan til Nýja-Sjálands árið 2017 og leigði íbúð í Dunedin, næststærstu borg Suðureyjar, þar sem hann undirbjó hryðjuverkin í Christchurch. Hann gekk þar í skotfélag og keypti byssur á netinu af nýsjálenskri vefverslun. Hann ferðaðist um fjallahéruð í Pakistan í október síðastliðnum og fór síðan í aðra ferð til austanverðrar Evrópu þar sem hann skoðaði fleiri vígvelli, m.a. Shipka-skarð í Búlgaríu þar sem um 7.500 Búlgarar og Rússar vörðust árás nær 40.000 tyrkneskra hermanna árið 1877.

 

Ástralski þjóðernissinninn sneri aftur til Nýja-Sjálands skömmu fyrir hryðjuverkin og byrjaði að tísta á Twitter þremur dögum áður en hann framdi ódæðisverkin. Hann tísti alls 64 sinnum, oftast með því að deila myndskeiðum eða birta tengla við greinar þjóðernissinna um íslam og innflytjendur. Hann birti m.a. 74 síðna „stefnuyfirlýsingu“ þar sem hann lýsti hatri sínu á múslímum og undirbúningi árásanna. Yfirlýsingin var undir yfirskriftinni „umskiptingin mikla“, með skírskotun til samnefndrar samsæriskenningar sem kom fyrst fram í Frakklandi. Hún gengur út á að verið sé að skipta út hvíta manninum í Evrópu fyrir innflytjendur sem fjölgi sér hraðar og séu að leggja heimalönd evrópskra þjóða undir sig.

Hryðjuverkamaðurinn er talinn hafa verið einn að verki og ekki er vitað til þess að hann tengist hreyfingum þjóðernissinna í Evrópu eða Ástralíu. Rannsóknin á ódæðisverkunum beinist meðal annars að því hvort hann hafi verið í sambandi við slíkar hreyfingar með því að nota annað nafn eða dulkóðuð skilaboð.

Leyniþjónustustofnanir í Evrópu hafa aukið eftirlit sitt með hreyfingum þjóðernissinna á síðustu árum. Öryggisstofnanir í löndum á borð við Bretland, Frakkland, Ítalíu og Þýskaland hafa ítrekað varað við hættunni sem stafar af þjóðernishreyfingunum vegna þess að hatursglæpum þeirra hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Til að mynda hefur leyniþjónusta Þýskalands ákveðið að fjölga þeim starfsmönnum sínum sem sinna eftirliti með þjóðernissinnum um 50% í ár. Nokkrar nasistahreyfingar hafa verið leystar upp í Þýskalandi á síðustu árum.

 

Sýnt var beint í sjónvarpi frá bænahaldi í Christchurch í dag og nýsjálenska þjóðin sameinaðist í tveggja mínútna þögn klukkan at 13:30 (00:30 að íslenskum tíma) en þá var vika liðin frá því árásin hófst í Al-Noor moskunni.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, var meðal þúsunda sem tóku þátt í minningarathöfninni í dag. Gamal Fouda, ímam við Al-Noor, sagði við bænahaldið að þjóðin væri sorgmætt en ekki hafi tekist að brjóta hana niður. 

Þættir