Seldu miða allt til hins síðasta

INNLENT  | 29. mars | 7:06 
Fjallað er um gjaldþrot WOW air í fjölmiðlum víða um heim og meðal annars bent á að flugfélagið hafi selt ódýra flugmiða allt til hins síðasta. Þrátt fyrir að eiga rétt á bótum er óvíst hvenær og eins hversu miklar þær verða.

Fjallað er um gjaldþrot WOW air í fjölmiðlum víða um heim og meðal annars bent á að flugfélagið hafi selt ódýra flugmiða allt til hins síðasta. Þrátt fyrir að eiga rétt á bótum er óvíst hvenær og eins hversu miklar þær verða.

Sama dag og WOW air fór í þrot var hægt að kaupa flugfarmiða með félaginu til Íslands frá Baltimore, Detroit, New York og Boston á minna en 200 Bandaríkjadali, 24 þúsund krónur. 

Í Washington Post kemur fram að WOW air hafi hvatt farþega til þess, eftir að ljóst var að flugfélagið var á leið í þrot, að leita til annarra flugfélaga um kaup á farmiðum til þess að komast á áfangastað. 

Í tilkynningu WOW til farþega kom fram að önnur flugfélög myndu jafnvel bjóða upp á björgunarfarmiða í ljósi aðstæðna. Ekki hafi verið veittar upplýsingar um aðra flugmöguleika. Aðeins að upplýsingar um hvaða flugfélög væri að ræða yrðu birtar þegar þær yrðu ljósar.

Meðal annars hafi írska flugfélagið Aer Lingus og Icelandair boðið WOW-farþegum upp á slík fargjöld næstu tvær vikurnar. Þeir sem eigi bókaðar ferðir eftir 11. apríl eigi möguleika á sanngjörnu verði fyrir flugmiða hjá Aer Lingus, segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Samfélagsmiðlar urðu fljótt helsta leið ósáttra ferðalanga til þess að lýsa vanþóknun á þeim aðstæðum sem þeir voru í. Þjónustuborð WOW air hafi heldur betur fengið að heyra það í skilaboðum á Twitter þar sem myllumerkið WOW air fór víða. 

Þeir farþegar sem bókuðu flug með WOW air í gegnum smáforritið Hooper munu fá endurgreitt segir framkvæmdastjóri Hooper, Frederic Lalonde. Jafnframt mun fyrirtækið greiða kostnað farþega sem eru strandaglópar við endurbókun. Talið er að um eitt þúsund viðskiptavinir Hooper hafi átt bókað flug með WOW air. Hooper er að hafa samband við þá alla, bæði í gegnum skilaboð og smáforritið.

Fyrirtækinu blæddi út

Marvin Ryder, prófessor við viðskiptafræðideild kanadíska háskólans McMaster, segir að fall WOW air sýni hversu viðkvæmur rekstur lággjaldaflugfélaga er. Þar sem hagnaðurinn er lítill miðað við sölutekjur. Hann segir að brestir hafi komið í rekstur WOW strax í fyrra þar sem hlutfall seldra sæta í flugvélum félagsins hafi ekki hækkað. Eins hafi tekjurnar ekki aukist á sama tíma og kostnaðurinn  jókst. Eigendur WOW air hafi látið fyrirtækið blæða út með því að halda áfram áætlunarflugi á óarðbærum flugleiðum. 

Þessu til samanburðar nefnir Ryder kanadíska flugfélagið Flair Airlines, sem er eina sjálfstætt rekna lággjaldaflugfélag landsins. Flugfélagið hóf rekstur árið 2017 og það virðist standa mun betur að vígi en WOW air. Ekki síst vegna þess að það aðlagar stöðugt reksturinn að markaðnum. Flair sé einfaldlega betur rekið en WOW air var. 

Washington Post

New York Times

Guardian

Toronto Star

BBC

CNN

Þættir