Einstök aðlögun Tasmaníudjöflanna

ERLENT  | 29. March | 15:17 
Óttast er að smitandi krabbamein gæti útrýmt Tasmaníudjöflum en nú hefur vonin kviknað á ný fyrir þessar litlu og einstöku kjötætur sem virðast hafa aðlagast breyttum aðstæðum á methraða.

Óttast er að smitandi krabbamein gæti útrýmt Tasmaníudjöflum en nú hefur vonin kviknað á ný fyrir þessar litlu og einstöku kjötætur sem virðast hafa aðlagast breyttum aðstæðum á methraða. 

Þróun dýrategunda er yfirleitt mæld í þúsundum ára en í snarbröttum fjöllum Norður-Tasmaníu eiga slíkar breytingar sér stað nánast í rauntíma. 

Þrír áratugir eru liðnir frá því að hið banvæna og smitandi krabbamein greindist fyrst í stofni Tasmaníudjöflanna. Og nú sjá sérfræðingar meiriháttar breytingar hjá um 15% þeirra dýra sem hafa lifað faraldurinn af.

Krabbameinið smitast er sýkt dýr bítur annað dýr, oftast er þau eru að makast eða slást. Tasmaníudjöflar eru nú aðeins um 15-18 þúsund talsins. Þeir virðast hafa snúið vörn í sókn og það lítur út fyrir að ónæmiskerfi þeirra hafi tekið stökkbreytingum á skömmum tíma. 

Sjúkdómurinn var nánast alltaf banvænn en mótefni hefur nú fundist í sýktum dýrum og í fyrsta sinn hafa á þriðja tug þeirra fengið sjúkdóminn en lifað hann af. „Við höfum einnig séð nokkur dýr sem hafa fengið æxli en læknað sig sjálf,“ segir Rodrigo Hamede hjá Háskólanum í Tasmaníu.

Breytt hegðun

Sérfræðingar sem vinna náið með dýrin segjast líka hafa tekið eftir hegðunarbreytingum í þeirra hópi. Það hafi einnig hjálpað til við að viðhalda stofninum.

Chris Coupland, hjá samtökum sem sjá um athvarf fyrir Tasmaníudjöfla, segir að þeim hafi fækkað hratt og að útrýming hafi blasað við. Sú hætta sé enn fyrir hendi. Hins vegar bendi ýmislegt til þess að framtíð þessara sérkennilegu pokadýra sé bjartari. Hann segir hegðunarbreytingar sem hann hafi tekið eftir m.a. felast í því að karldýrin maki sig yngri en áður og að fengitími kvendýranna sé nú tvisvar á ári í stað einu sinni áður.

Hann telur að þetta megi rekja til þess að dýrin eru færri og hafi því rýmra búsvæði. Þannig séu átök um búsvæði og kvendýr sjaldgæfari og gefi þannig dýrunum meiri tíma til að makast. 

Talið er að ef dýrunum fækki meira, fari undir 10 þúsund, þurfi að fara að rækta þau til að viðhalda tegundinni. Erfðaefni úr mörgum þeirra hefur því verið safnað ef allt fer á versta veg.

Tasmaníudjöflar eru enn á lista yfir dýr í mikilli útrýmingarhættu. Þeim var útrýmt á meginlandi Ástralíu á sínum tíma og sömu sögu er að segja af örlögum Tasmaníutígursins á síðustu öld. 

Þættir