Niðurstaðan bæði „framsækin og ábyrg“

INNLENT  | 4. April | 0:38 
„Þetta hefur verið nokkuð löng og ströng lota, en mér líst vel á niðurstöðuna, mér finnst hún vera í senn framsækin og ábyrg,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við mbl.is um þá kjarasamninga sem kynntir voru í kvöld.

„Mig langar til þess að óska þeim sem að þeim standa til hamingju með niðurstöðuna. Þetta hefur verið nokkuð löng og ströng lota, en mér líst vel á niðurstöðuna, mér finnst hún vera í senn framsækin og ábyrg,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við mbl.is um þá kjarasamninga sem kynntir voru í kvöld.

„En það sem mestu skiptir er að við erum hér með trúverðuga heildaráætlun sem samanstendur af kjarasamningum og yfirlýsingu stjórnvalda sem mun bæta kjör þeirra sem neðst eru í tekjustiganum mest, en samt lyfta undir ráðstöfunartekjur allra. Á sama tíma og við gerum þetta erum við að leggja grunn að framhaldi á lífskjarasókninni. Í því felst ekki síst að hér er verið að styðja við áframhald á stöðugleika og vaxandi kaupmætti,“ segir Bjarni.

Hann segir að mjög margt af því sem felist í yfirlýsingu stjórnvalda séu hlutir sem eigi sér rætur í stjórnarsáttmálanum og fyrri yfirlýsingum.

„Við sögðum til dæmis í stjórnarsáttmálanum strax að við myndum þurfa að ákveða tímasetningar eftir því hvernig um semdist á vinnumarkaði og nú sjáum við fram á ábyrga samninga og þá getum við tímasett endanlega þessar aðgerðir, eins og t.d. skattalækkunina, sem er ein umfangsmesta skattalækkun sem við höfum séð síðari ár.

 

 

Við erum að tala um, þegar allt er komið til framkvæmda, skattalækkun sem nemur um 20 milljörðum á ári og mun auka ráðstöfunartekjur þeirra sem eru neðst í tekjustiganum um 10 þúsund krónur, en allir launamenn munu sjá skattalækkanir,“ segir Bjarni.

Auðvelda tekjulágum að standast greiðslumat

Frá og með næstu áramótum verður ekki hægt að taka verðtryggð jafnreiðslulán til meira en 25 ára, en slík lán til 40 ára hafa verið algengustu íbúðalán á markaði hér á landi um langt skeið. Hafa þau jafnan verið kölluð Íslandslán.

Frétt mbl.is

Spurður út hvort þetta komi ekki þeim tekjulægstu illa, þar sem þetta eru jafnan „ódýrustu lánin“ með lægstu mánaðarlegu greiðslubyrðina, segir Bjarni að það sé gild spurning.

„Við erum að taka ákveðnar lánategundir úr sambandi eða út af markaði, eins og 40 ára jafngreiðslulánin verðtryggðu og við erum að segja að þau megi ekki vera nema til 25 ára, en á móti kemur að við erum að opna fyrir skattfrelsi úttektarsparnaðar, sem mun koma þeim til góða sem ella myndu ekki ráða við greiðslubyrðina.

Þannig að, svo að fólk geti staðist greiðslumat með þessu nýja lánaformi erum við að opna fyrir úttekt á séreignasparnaði og tilgreindri séreign, skattfrjálst. Síðan, eins og hefur verið rakið hérna í kvöld vonumst við auðvitað til þess að heildarsamhengið geti leitt til vaxtalækkunar, sem mun gera fólki sömuleiðis auðveldara að standast greiðslumat,“ segir Bjarni Benediktsson.

Þættir