Fórnaði sér fyrir sannleikann

ERLENT  | 22. apríl | 14:54 
Nítján ára gömul stúlka var brennd til bana að áeggjan skólastjórans sem hún sakaði um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Faðir hennar segir að hún sé píslarvottur sem hafði fórnað lífi sínu fremur en að ljúga.

Nítján ára gömul stúlka var brennd til bana að áeggjan skólastjórans sem hún sakaði um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Faðir hennar segir að hún sé píslarvottur sem hafði fórnað lífi sínu fremur en að ljúga.

Yfirvöld í Bangladess hafa fyrirskipað 27 þúsund skólum í landinu að koma á laggirnar sérstökum ráðum til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi í skólum en morðið á Nusrat Jahan Rafi hefur vakið gríðarlega reiði meðal almennings í þessu fjölmenna ríki Suður-Asíu. Reiðin beinist ekki síst gegn lögreglu en greint hefur verið frá því að Rafi hafi leitað til lögreglu undir lok mars til þess að tilkynna um ofbeldið en lögreglustjórinn sagði henni að þetta væri nú ekkert stórmál um leið og hann skráði niður kvörtun hennar.

Í gær tóku fjölmargir þátt í mótmælum í höfuðborginni þar sem harðrar refsingar er krafist yfir morðingjunum. 

Frétt mbl.is

Að sögn lögreglu var Rafi lokkuð upp á þak skólans þar sem henni var gert að draga kvörtunina til baka. Þegar hún neitaði var eldfimu efni hellt yfir hana og kveikt í. Rafi lést á sjúkrahúsi 10. apríl síðastliðinn en hún var með brunasár á 80% líkamans eftir árásina. Að minnsta kosti 20 hafa verið handteknir í tengslum við málið.

Mótmælendur segja að morðið hafi afhjúpað menningu refsileysis þegar kemur að kynferðisbrotum gagnvart konum og börnum og í raun að þeir sem tilkynna um slíkt ofbeldi eigi á hættu að verða fyrir enn frekara ofbeldi en annars væri.

Að sögn mótmælenda eru nauðganir og kynferðislegt ofbeldi allt of algengt í Bangladess og jafnvel hugrökkustu stúlkurnar fá ekki einu sinni réttlætinu fullnægt heldur þurfi þær að fórna lífi sínu fyrir aðra. Ef lögregla og yfirvöld myndu bregðast rétt við slíkum ásökunum þá hefði verið hægt að bjarga lífi Rafi og fleiri hugrakkra kvenna sem hafa þurft að gjalda það dýru verði að segja sannleikann.

Þættir