Eldar hafragraut í sínar hænur

INNLENT  | 10. maí | 15:33 
„Að rækta er lífið“, segir Björk Bjarnadóttir sem býr í Brennholti í Mosfellsdal ásamt Tómasi manni sínum og stunda þau lífræna ræktun. Hún eldar stundum hafragraut og bakar jafnvel súkkulaðikökur fyrir landnámshænurnar sínar. Aðalbúskapur hjónanna er tómataræktun þar sem þau anna ekki eftirspurn.

„Að rækta er lífið“, segir Björk Bjarnadóttir sem býr í Brennholti í Mosfellsdal ásamt Tómasi Atla Ponzi manni sínum þar hafa þau stundað lífræna ræktun síðustu átta árin. Hún eldar stundum hafragraut og bakar jafnvel súkkulaðikökur fyrir landnámshænurnar sínar. Aðalbúskapur hjónanna er tómataræktun þar sem þau anna ekki eftirspurn. 

Í myndskeiðinu er kíkt í heimsókn í Brennholt en ítarlegt viðtal við Björk er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Vilja að fleiri rækti mat

„Fólk þarf ekki að fara á námskeið til að rækta matjurtir, það á bara að vaða í verkið. Þetta eru ekki geimvísindi og maður lærir mest á því að gera sjálfur. Auk þess er auðvelt að sækja sér upplýsingar á netinu. Aðalmálið er að vera ekki hræddur, jurtir vaxa ef passað er upp á birtu, vökvun og næringu moldar,“ segir Björk en hjónin rækta lífrænt ræktað grænmeti og tómata fyrir almenning, veitingahús og eigið heimili.

„Kokkarnir eru brjálaðir í þetta, við önnum ekki eftirspurn. En við ræktum líka fyrir okkur sjálf og eigum grænmeti allt árið. Við kaupum kjöt fyrir heimilið beint frá bónda og fáum fisk frá bróður mínum sem er sjómaður. Við fáum kindaskít frá nágranna okkar sem við notum sem áburð í jurtaræktuninni, en við notum engan tilbúinn áburð og ekkert skordýra- eða illgresiseitur. Það sem skaðar umhverfið skaðar okkur líka. Það sem fer í jarðveginn hverfur ekki heldur fer í vistkerfið og hefur áhrif á okkur öll og berst út í grunnvatnið.“

Grautur einu sinni í viku

Björk og Tómas eru með sex landnámshænur í Brennholti sem sjá þeim fyrir eggjum og einn hani er meðal þeirra, til skrauts.

„Ég kalla þær púdds og þetta eru miklar dekurhænur. Þær hlaupa frjálsar hér um allt þegar ég hleypi þeim út yfir daginn. Þær hafa allar nafn og búa yfir ólíkum persónuleika. Haninn heitir Rauður og sér um að halda hópnum saman og reynir að grípa inn í erjur milli hænsnanna. Hænurnar heita Brussa, Rósa, Dama, Gýpa, Pönký sem er gæfust og klárust og svo Brúska sem er aðalfrekjan,“ segir Björk sem eldar hafragraut á hlóðum fyrir sínar dekurhænur einu sinni í viku.

Þættir