Þakið fallið og tína klæðningu af

INNLENT  | 12. maí | 5:30 
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur frá því á fyrsta tímanum í nótt barist við eld í Seljaskóla sem kom upp í einni af níu byggingum skólans. Hafsteinn Halldórsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikill eldur hafi logað upp úr þakinu þegar þeir komu á staðinn, en eldurinn hafi reynst staðbundinn.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur frá því á fyrsta tímanum í nótt barist við eld í Seljaskóla sem kom upp í einni af níu byggingum skólans. Hafsteinn Halldórsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikill eldur hafi logað upp úr þakinu þegar þeir komu á staðinn, en eldurinn hafi reynst staðbundinn. Segir hann að eldurinn hafi sérstaklega verið á öðrum gafli hússins og reykur upp eftir öllum mæninum.

Hafsteinn segir aðstæður til að athafna sig erfiðar fyrir slökkviliðið. „Það er bara eldur í þessu þaki og breiddist ekkert frekar út, en hér hafa verið mjög erfiðar aðstæður og erfitt að komast að þessu. Þetta er innarlega á skólalóðinni og erfitt að sækja þetta með þeim tækjum og búnaði sem við höfum.“

mbl.is

mbl.is

Hafsteinn segir að þeir hafi fyrst reynt að slökkva eldinn og svo farið í að reyna að rjúfa þakið. „En við höfðum hreinlega ekki undan þar sem eldurinn hljóp eftir öllu þakinu þannig að við réðum ekki við það. Á endanum byrjaði þakið að síga svo við þurftum að kalla okkar mannskap af þakinu.“ Þá var breytt um áætlun og slökkvistarfið unnið úr fjarlægð.

 

 

Þakið á húsinu féll nú á fimmta tímanum. „Það var það sem við biðum eftir að myndi gerast og að við gætum slökkt þann eld sem við sæjum. Nú erum við að fara í að tína klæðninguna ofan af þakinu þannig að við getum slökkt þann eld sem þar leynist,“ segir Hafsteinn. Hann segist búast við því að slökkviliðið verði á staðnum lengi

Spurður um tjón segir Hafsteinn að það sé töluvert. „Þakið er fallið, en það er steypt plata undir þakinu. Hún hefur haldið og ekkert sigið. En það er töluvert tjón eftir reyk, sót og vatn,“ segir hann.

Hafsteinn telur að tjónið sé aðallega í þessari byggingu, sem er númer fjögur. Hann segir einhvern reyk hafa farið á milli húsa, en að slökkviliðið telji að það hafi komið í veg fyrir að mikill reykur færi inn í bygginguna.

Tæplega 40 slökkviliðsmenn eru á vettvangi, en kallað var út frá öllum slökkviliðsstöðvum höfuðborgarsvæðisins auk þess sem kallað var á mannskap af frívakt.

Þættir