Búin að taka frá gistingu á Íslandi

FÓLKIÐ  | 17. maí | 16:47 
„Þetta er raunar einn af mörgum,“ segir Ástralinn Sharleen Wright við mbl.is. Wright vekur athygli í blaðamannaaðstöðunni hér í Tel Aviv en hún er í Íslands-stuttermabol og er mikill aðdáandi Hatara.

Þetta er raunar einn af mörgum,“ segir Ástralinn Sharleen Wright við mbl.is. Wright vekur athygli í blaðamannaaðstöðunni hér í Tel Aviv en hún er í Íslands-stuttermabol og er mikill aðdáandi Hatara.

Wright er, eins og margir blaðamenn hérna, mikill Eurovision-aðdáandi en hún starfar í ferðamennsku og vinnur einnig fyrir Eurovision-vefsíðuna ESC Insight.

„Ég er með íslenskan fána, bolinn sem ég er í núna og Hatara boli sem ég hef klæðst í vikunni,“ segir Wright.

Hún býst við miklu af Hatara og telur að sveitin gæti hafnað í öðru sæti í úrslitunum annað kvöld. „Mér finnst eins og margir skilji skilaboð Hatara og hljómsveitina. Fólk leitar að einhverju öðruvísi núna, ekki sama örugga sænska poppinu og áður.“

 

Ástralíu er spáð öðru sæti samkvæmt veðbönkum en Wright segist vera óvenju bjartsýn þetta árið. Lag Kate Miller-Heidke, Zero Gravity, hefur vakið mikla athygli og ekki síður hvernig hún svífur um sviðið.

„Ég er áströlsk og venjulega tel ég möguleika okkar ekki mikla en í ár er annað uppi á teningunum,“ segir Wright. Hún bætir því við að fyrst hafi lagið ekki heillað hana en núna sé hún mjög bjartsýn.

Lítill fugl í blaðamannaaðstöðunni hvíslaði því að undirrituðum að Wright hefði mikla trú á Hatara, það mikla að hún væri búin að gera ráðstafanir varðandi ferðalag til Íslands næsta ár á Eurovision.

„Ég hef tekið frá gistingu í maí. Ég vinn við ferðaþjónustu og einn af stöðunum sem ég sel ferðir til er Ísland. Ég hef tekið frá gistingu í Reykjavík og á nokkrum öðrum stöðum sem ég tel að geti unnið keppnina í ár.“

 

Þættir