Ólíklegt að fleiri finnist á lífi

ERLENT  | 24. júní | 8:48 
Ekki er útlit fyrir að fleiri finnist á lífi í rústum sjö hæða nýbyggingar í strand­bæn­um Si­hanou­kville í Kambódíu sem hrundi til grunna aðfaranótt laugardags. 25 eru látn­ir, all­ir úr hópi þeirra sem unnu við að byggja húsið.

Ekki er útlit fyrir að fleiri finnist á lífi í rústum sjö hæða nýbyggingar í strand­bæn­um Si­hanou­kville í Kambódíu sem hrundi til grunna aðfaranótt laugardags.

25 eru látn­ir, all­ir úr hópi þeirra sem unnu við að byggja húsið, en um 70 verka­menn höfðust við á neðri hæðum húss­ins og voru í fasta­svefni er bygg­ing­in hrundi fyr­ir­vara­laust. Á þriðja tug eru slasaðir.

Frétt mbl.is

 

„Við eigum ekki von á því að finna fleiri á lífi,“ segir hermaður á vettvangi í samtali við AFP-fréttastofuna.

Talið er að ör­ygg­is­mál­um hafi verið veru­lega ábóta­vant og Hun Sen for­sæt­is­ráðherra Kambódíu hefur fyrirskipað að rannsókn á byggingarsvæðinu, sem og öllum byggingarsvæðum í bænum, fari fram. Hann sakar verk­taka um kæru­leysi. Ríkisstjórinn í Preah Sihanouk-héraði hefur sagt af sér vegna slyssins. 

„Ég missti eiginmann minn og frænda,“ segir Khim Pov hágrátandi í samtal við AFP. Í fangi hennar eru dóttir hennar og sonur, sem starfaði einnig í byggingunni en tókst að skríða út úr rústunum. Lík eiginmanns hennar hefur enn ekki fundist en Pov segist vera búin að gefa upp alla von um að hann finnist á lífi. „Líkin sem eru dregin úr rústunum eru öll kramin.“

Fjór­ir hafa verið hand­tekn­ir og yf­ir­heyrðir vegna hruns bygg­ing­ar­inn­ar, þrír kín­versk­ir eft­ir­lits­menn með fram­kvæmd­un­um og kambódísk­ur land­eig­andi, en fram­kvæmd­in var í hönd­um Kín­verja, sem hafa fjár­fest mikið í strand­bæn­um, sem var eitt sinn rólegur strandveiðibær, á und­an­förn­um árum.

Um 200 þúsund verkamenn starfa í Kambódíu, flestir ófaglærðir og starfa utan stéttarfélaga, og treysta þeir á dagslaun. Mikill uppgangur hefur verið í byggingastarfsemi í bænum en hraðinn hefur verið harðlega gagnrýndur sem og vinnuaðstæður á byggingasvæðum. 

 

 

Þættir