„Við gleymum bara slæmu dögunum“

INNLENT  | 3. júlí | 17:00 
Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir byrjaði fyrst í golfi árið 2012. Um leið var ekki aftur snúið eftir að hún komst fyrst á bragðið. Ingibjörg er líklega fyrsti íslenski golfarinn til að spila með gervihönd sem er sérsniðin að íþróttinni, en Ingibjörg missti hægri höndina í slysi fyrir um 40 árum.

Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir byrjaði fyrst í golfi árið 2012. Hún segir að um leið hafi ekki verið aftur snúið eftir að hún komst fyrst á bragðið. Ingibjörg er líklega fyrsti íslenski golfarinn til að spila með gervihönd sem er sérsniðin að íþróttinni, en Ingibjörg missti hægri höndina í slysi fyrir um 40 árum. 

„Ég lenti í frystihússlysi árið 1977 þegar allir voru að vinna í fiski, hún lenti í marningsvél og það þurfti að taka höndina af ofan við olnboga,“ segir Ingibjörg sem var þá 17 ára gömul. 

Ingibjörg hefur alla tíð verið mjög lifandi og virk manneskja. Hún hefur alltaf verið dugleg í útivist og annarri hreyfingu, og svo kom að því árið 2011 að áhuginn á golfinu kviknaði. 

 

„Þetta var eitthvað sem mig langaði að prófa en ég vissi ekki hvort ég réði við. Árið 2012 fór ég af stað og fékk að vera með Golffélagi fatlaðra einn vetur og inn í sumarið. Ég hafði ekki alveg kjarkinn til að fara strax út á völl,“ segir Ingibjörg. 

„Sumarið 2013 spilaði ég ljúfling í Keili heilt sumar, þá var ég bara með aðra höndina. Svo tók ég þessa djörfu ákvörðun árið 2014 að ganga í GKG sem er alvöru golfklúbbur og þá var ekkert aftur snúið. 

„Um mitt það sumar fór ég að finna að það hentaði ekki nógu vel að vera bara með aðra höndina. Þá fór ég að vinna í því hvort hægt væri að fá framlengingu, golfhönd. Ég byrjaði með ameríska hönd og nú er ég komin í samvinnu við Össur og við erum að þróa íslenska hönd sem vonandi verður eitthvað úr. Við prófuðum hana fyrr í sumar og hún lofar mjög góðu en það vantar svolítið upp á framsveifluna, það er næst á dagskrá.“ 

 

Er á hraðri niðurleið í forgjöf

Ingibjörg hefur prófað tvær tegundir handa frá Bandaríkjunum. Hún segir höndina sem hún spili með núna vera ögn stífari en hina, en sú mýkri brotnaði eftir að Ingibjörg hafði þjálfað hana upp í byrjun sumars. 

Ingibjörg segist hafa byrjað í golfinu aðeins seinna en flestar vinkonur hennar, en að hún gefi ekkert eftir. 

„Ég er á hraðri niðurleið í forgjöf sem er mjög gaman,“ segir Ingibjörg hlæjandi. 

„Þetta er búið að taka mikinn tíma og mikla vinnu. En þegar áhuginn er svona mikill þá heldur maður bara áfram. Ég miða mig alltaf við vinkonur mínar sem eru í golfinu og ég er búin að vera svona sirka ári á eftir þeim. En núna er ég að ná þeim!“

„Golfið er samt þannig að þetta kemur allt í stökkum. Allt í einu fer maður að hrynja í forgjöf eins og virðist vera að gerast hjá mér núna og svo kannski stendur þú í stað heilt sumar. Ég er alveg í nákvæmlega sömu sveiflunum og allir sem eru í golfi. 

„Þú átt alveg frábæran golfdag, svo ferðu daginn eftir og ætlar að slá í gegn og það gerist ekkert, allt er í bulli. Þannig er golfið. Það er líka eitt af því sem gerir það spennandi, það er alltaf ástæða til að fara aftur. Annaðhvort til að endurtaka eitthvað gott, eða til að bæta það sem gekk ekki upp,“ segir Ingibjörg. 

Allir enda í golfinu 

Ingibjörg er núna byrjuð að taka þátt í mótum og segist vera ljómandi ánægð með árangurinn hingað til. 

„Í fyrra var ég allt í einu komin í þá stöðu að vera keppa til úrslita á Meistaramóti í mínum flokki. Mér brá svo sjálfri að ég kunni ekki að haga mér. Ég náði mér svo aftur og landaði öðru sæti. Ég hefði getað verið í fyrsta sæti, það munaði ekki miklu, en það var mjög gaman og sú sem vann átti mjög mikið skilið að vinna,“ segir Ingibjörg ánægð.

„Núna er ég komin niður um flokk. Við erum að byrja Meistaramótið í næstu viku og þá er ný áskorun, að gera vel í mínum flokki.“

Aðspurð hvort hún viti um marga aðra einhenta golfara segir Ingibjörg að það sé lítill hópur kvenna sem sé í reglulegu sambandi. 

 

„Við höldum saman, nokkrar sem erum einhentar. Tvær af þeim eru komnar vel af stað í golfinu, á sínum forsendum. Þetta snýst allt um það, þú verður að spila á þínum forsendum. Svo eru líka nokkrar yngri sem eru enn þá með ung börn, þær koma seinna, þetta er svo smitandi. Við endum öll í golfi.

Frumkvöðlastarf í bland við æðibunugang

Þó að Ingibjörg sé ekki eini einhenti golfarinn á Íslandi var hún sú fyrsta sem byrjaði að spila með golfhönd. 

„Ég æddi af stað með þetta. Ef það er eitthvert nýtt dót verð ég að prófa það ef ég veit af því. Ég var svo spennt fyrir því að fá eitthvað í hendurnar sem gæti virkað. Mér finnst svo gaman að vinna með fólki sem er tilbúið í að vinna með mér að þróa þetta. 

„Ég fékk fyrstu höndina árið 2014 og ég get ekki spilað með henni í dag. Það er eins og að vera á eld, eld, eldgömlum bíl í nútímaumferð. Ef maður prófar ekki veit maður ekki hvort hlutirnir virka. En já ég byrjaði með þetta, pínku frumkvöðull og svolítill æðibunugangur inn á milli,“ segir Ingibjörg brosandi. „En þannig gerast hlutirnir.“

Ingibjörg segir þróun á nýrri íslenskri golfhendi ganga vel. 

„Við erum að fatta það að með því að prófa og með því að gera mistök náum við framförum. Þá gerist eitthvað stórkostlegt inn á milli. Svo gleymum við bara slæmu dögunum. Þetta er eins og á golfvellinum, þá tökum við bara góðu höggin með okkur heim í minningunni. En það eru mikil forréttindi að fá að búa á Íslandi og fá að vera í sambandi við Össur og vera í þessari þróunarvinnu. Það er mjög gaman.“

 

Þættir