Búa sig undir næsta skjálfta

INNLENT  | 6. júlí | 19:20 
„Þetta var rosalegur hristingur,“ segir Unnur Eggertsdóttir leikkona, sem er búsett í Los Angeles í Kaliforníu, en stórir jarðskjálftar hafa skekið ríkið undanfarna daga. Íslenskur jarðskjálftafræðingur sem býr í Kaliforníu segir ekki spurningu hvort heldur hversu stórir næstu skjálftar verða.

„Þetta var rosalegur hristingur,“ segir Unnur Eggertsdóttir leikkona, sem er búsett í Los Angeles í Kaliforníu, um tvö hundruð kílómetrum frá upptökum jarðskjálftanna stóru sem skekið hafa ríkið undanfarna daga. Íslenskur jarðskjálftafræðingur sem býr í Kaliforníu segir ekki spurningu hvort heldur hversu stórir næstu skjálftar verða.

Skjálfti að stærð 6,4 reið yfir á fimmtudag og fylgdu nokkrir minni eftirskjálftar í kjölfarið. Um hádegisbil í gær, að íslenskum tíma, reið svo stærsti skjálfti í tuttugu ár yfir svæðið en hann mældist um 7,1 að stærð.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2019/07/06/jardskjalfti_7_1_ad_staerd_i_kaliforniu/

Unnur fann ekki fyrir fyrri skjálftanum stóra, en hún segir að sá seinni hafi ekki farið fram hjá neinum á svæðinu. Það sem vakti sérstaka athygli hennar var hve lengi hann stóð yfir. „Maður er vanur því á Íslandi að skjálftar standi yfir í örfáar sekúndur, en þessi hélt bara áfram,“ segir Unnur sem náði myndbandi af því hvernig ljósakrónurnar á heimilinu hristust í takt við jarðskorpuna áður en hún hljóp út á götu líkt og flestir nágrannar hennar.

Lítið er um tjón í Los Angeles, enda borgin í þónokkurri fjarlægð frá upptökunum nálæft smábænum Ridgecrest. Nokkur brotin vínglös, sem stóðu úti á svölum hjá Unni, urðu þó skjálftanum að bráð.

„Það er smá stress í gangi í borginni því fólk hefur lengi átt von á stórum skjálfta frá San Andreas-beltinu sem myndi losa um spennuna,“ segir Unnur og bætir við að þessir skjálftar séu sennilega undanfari hans. Ógjörningur er þó að átta sig á hvort vikur, mánuðir eða jafnvel ár séu í hann.

 

 

Aðeins spurning um stærð eftirskjálftanna

Í samtali við mbl.is segir Egill Hauksson, jarðskjálftafræðingur við Caltech-hákskólann í Kaliforníu, að ekki sé spurning hvort von sé á eftirskjálftum, heldur einfaldlega hve stórir þeir verða. Jarðfræðideild skólans hafi reiknað það út að um 3% líkur séu á skjálfta upp á 7 eða meira næstu vikuna, en 27% líkur á skjálfta stærri en 6. 

Um Kaliforníuríki gengur virkt jarðskjálftabelti, San Andreas-beltið, en Egill segir að skjálftar séu þar ekki daglegt brauð. Svæðið sem um ræðir er í námunda við smábæinn Ridgecrest skammt undan Lake China, vopnabúri bandaríska sjóhersins.

 

 

 

Í frétt LA Times segir að skemmdir hafi orðið á búnaði í búrinu, en ekki liggi fyrir hve miklar þær voru. Þá er einnig rætt við íbúa í Ridgecrest sem hafa þurft að gista í bílum sínum eftir að flísar hrundu úr lofti í skjálftum helgarinnar, en þeir óttast að sama geti gerst í kröftugum eftirskjálftum. Um 3.000 íbúar bæjarins eru án rafmagns, að því er haft er eftir Mark Ghilarducci, yfirmanni almannavarna á svæðinu.

Engin viðvörun barst frá almannavörnum áður en skjálftahrinan hófst en aðspurður segir Egill ógjörning að spá fyrir um skjálfta af þessu tagi. „En um leið og fyrstu skjálftarnir fóru af stað áttuðum við okkur á að við værum á virku skjálftatímabili og höfum fylgst grannt með atburðarásinni eftir það,“ segir hann.

Egill starfar við jarðvísindadeild Caltech-háskólans en hann hefur búið í Bandaríkjunum frá árinu 1974 og ræðir hann við blaðamann á ensku.

Þættir