Stærri, sterkari, þyngri, flottari

INNLENT  | 7. júlí | 19:20 
Nýju þyrlur Landhelgisgæslunnar koma til með að auka viðbragðsgetu gæslunnar enda eru þær stærri, þyngri, hraðfleygari og búa yfir meiri flutningsgetu en forverar þeirra. Þetta segir Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, sem flaug TF-GRÓ, nýrri þyrlu Landhelgisgæslunnar, í gær.

Nýju þyrlur Landhelgisgæslunnar koma til með að auka viðbragðsgetu gæslunnar enda eru þær stærri, þyngri, hraðfleygari og búa yfir meiri flutningsgetu en forverar þeirra. Þetta segir Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, sem flaug TF-GRÓ, nýrri þyrlu Landhelgisgæslunnar, í gær.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/07/06/tf_gro_komin_til_landsins/

GRÓ er reyndar ekki glæný vél. Hún er af gerðinni Super Puma H225 frá Airbus og árgerð 2010. Vélin er tekin að láni frá norska fyrirtækinu Ugland Holding en hefur síðustu ár verið í notkun hjá fyrirtækinu Bristow þar í landi við leitarbjörgun. Undanfarna mánuði hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á vélinni til að hún sé i stakk búin til að nýtast Landhelgisgæslunni en það var loks í gær sem vélin var sótt til Noregs.

 

 

TF-GRÓ kemur í stað vélarinnar TF-SYN, sem einnig var í eigu norska fyrirtækisins, en hún var eldri árgerð Super Puma-vélar, og af tegundinni AS 332L1. Þetta er önnur endurnýjun á flota gæslunnar á árinu því í mars var TF-EIR tekin í gagnið í stað vélarinnar TF-GNÁ. Var þar um sömu skipti og nú að ræða, þar sem nýrra Super Puma-módel var tekið inn fyrir eldra.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/03/16/tf_eir_komin_til_landsins/

Sigurður Wiium segir helsta muninn á vélunum að sú nýja sé stærri og þyngri. Þar af leiðandi beri hún meira, en hámarksburðarþol í flugtaki er um 11 tonn, samanborið við 8,6 hjá þeim gömlu. Þá er meira rými í þyrlunni, hún er hraðfleygari og drífur lengra.

Tækjabúnaður er í samræmi við flugreglur og flugleiðsögubúnaður og annar samskiptabúnaður töluvert endurnýjaður frá því sem var í fyrri vélum.

„Þetta er mjög jákvæður áfangi hjá okkur og við erum bara ánægðir og þakklátir fyrir að þetta sé gengið í gegn,“ segir Sigurður að lokum.

Mikið ferðalag fyrir höndum

Þegar TF-EIR kom til landsins í mars höfðu flugmenn Gæslunnar ekki hlotið neina þjálfun á nýju vélunum og því var brugðið á það ráð að fá erlenda aðila til að flytja vélina til landsins. Flugmennirnir hafa nýtt tímann síðan þá vel og hafa nú allir fengið þjálfun á vélina.

Því kom ekki annað til greina nú en að senda sveit í víking. Sigurður Wiium fór út til Noregs ásamt Andra Jóhannssyni flugmanni og Jóhanni Erlendssyni yfirflugvirkja á dögunum. Framkvæmdu þeir nokkrar prófanir á vélinni áður en óhætt þótti að fljúga henni yfir til Íslands, þar sem hún lenti á sjöunda tímanum í gærkvöldi.

Á leið sinni frá Stafangri í Noregi hafði vélin þó viðkomu á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum, auk þess sem vélin lenti á Höfn í Hornafirði áður en stefnan var sett á Reykjavíkurflugvöll.

Floti Landhelgisgæslunnar samanstendur nú af nýju þyrlunum tveimur, GRÓ og EIR, auk þyrlunnar TF-LÍF, sem hefur verið í eigu Landhelgisgæslunnar frá 1995, og flugvélarinnar TF-SIF.

Þættir