Mía fundin eftir 50 daga leit

INNLENT  | 7. ágúst | 18:36 
Hafnfirsk villilæða týndist eftir að hún flutti í Vesturbæ. Ekkert spurðist til hennar í 50 daga. Í gær kom hún svo heim úr því sem eigandi hennar lítur nú á sem „langt ferðalag“ um hverfið. Mikil gleði ríkir nú á heimilinu.

Hún er fundin! Læðan Mía var týnd í 50 daga í Vesturbænum, eftir að hún strauk af nýju heimili sínu í Faxaskjóli 18. júní. Ætli hún hafi ekki ferðast víða. Í gær fannst hún og eftir eltingarleik og skipulagðar handsömunaraðgerðir tókst að koma henni inn í búr og heim. Nú, rækjur, eins og sést í myndbandi að ofan.

„Það er eins gott að vera komin með hana heim. Hún er búin að vera algert kúrudýr síðan hún kom inn í gærkvöldi, hún bara sefur og borðar rækjur,“ segir Guðrún Kolbeinsdóttir, eigandi Míu. Hún lokkaði Míu, sem er mannfælin á opinberum vettvangi þótt ekki sé hún það innandyra, inn í fellibúr með túnfiski í gærkvöld.

 

 

Guðrún fékk símtal frá íbúa í hverfinu á sunnudaginn sem benti henni á að við Einimel væri köttur sem gæti hugsanlega verið hennar köttur. Það var ekki furða að íbúar hverfisins væru með opin augun, Guðrún enda búin að auglýsa út um allt, hún hefur prentað út minnst 40 auglýsingar og hengt upp. Og símtalið var vissulega ekki það fyrsta, fleiri tugir hjálpsamra hafa sent Guðrúnu myndir af því sem átti að vera Mía. Hingað til hefur engin ábending reynst vera um hana. 

„En núna var þetta bara Mía! Hann staldraði aðeins við karlinn en svo tók ég við og sat um hana frá sunnudegi, allan mánudag og alveg þar til klukkan eitt í nótt þegar hún loksins fór inn í búrið,“ segir Guðrún. 

 

 

Þegar Mía strauk var hún í aðlögun fyrir utan nýja húsið sitt í Vesturbænum, þangað sem hún eigendur hennar höfðu flutt tveimur vikum áður. Sú aðlögun var sem sé misheppnuð: eitt kvöldið kom hún sér fyrir undir palli í garðinum síðdegis og hvarf á braut þá sömu nótt. Og svo sást ekkert til hennar. 

50 langir dagar

„Ég er búin að fara út að leita að henni nánast daglega hérna í 50 daga og ekkert fundið,“ segir Guðrún, sem er engu nærri um hvar Mía var niðurkomin þessa myrku tíma. „Hún er alla vega ekki mikið grennri, þannig að hún hefur fengið eitthvað að borða. Þetta var bara langt ferðalag. Kannski ætlaði hún aftur í Hafnarfjörð,“ segir Guðrún. 

 

 

Af Hafnarfirði ertu komin og til Hafnarfjarðar skaltu aftur fara, hefur Mía kannski hugsað, enda villiköttur úr Hafnarfirði. Guðrún tók hana að sér fyrir tæpum þremur árum. „Hún hefur bara eitthvað ruglast í ríminu, held ég, og kannski ætlað alla leið aftur heim. Hún hefur alltaf verið útiköttur en þarna varð henni eitthvað á,“ segir hún.

 

Mía fær að vera innandyra næsta mánuð, í minnsta lagi. Eftir það má fara að huga að næstu atrennu að aðlögun, enda er Mía útiköttur í eðli sínu. Það kemur að því en í bili eru það rækjur, mjólk og rólegheit. Svo er von á öðrum kettlingi úr annarri átt inn á heimilið á næstu vikum, að sögn Guðrúnar, sem vonar að hann muni veita Míu góðan félagsskap í inniverunni, hún geti jafnvel gengið viðkomandi í móðurstað, sjálf enda veraldarvön.

Þættir