„Finnst ég hafa séð allt Ísland“

TÆKNI  | 12. september | 9:47 
„Mér finnst ég hafa séð allt Ísland,“ sagði Sarika frá Bandaríkjunum eftir að hafa farið í sýndarflugið hjá afþreyingarferðaþjónustunni Flyover Iceland sem var opnuð í síðustu viku. mbl.is kíkti á nýja fyrirtækið sem er ein stærsta erlenda fjárfesting sem komið hefur inn í íslenska ferðaþjónustu.

„Mér finnst ég hafa séð allt Ísland,“ sagði Sarika frá Bandaríkjunum eftir að hafa farið í sýndarflugið hjá afþreyingarferðaþjónustunni Flyover Iceland sem var opnuð í síðustu viku. mbl.is kíkti á nýja fyrirtækið sem er ein stærsta erlenda fjárfesting sem komið hefur inn í íslenska ferðaþjónustu.

Í myndskeiðinu er rætt við þau Sariku og Sid þegar þau voru nýstigin úr sýndarfluginu. Einnig er rætt við Evu Eiríksdóttur, markaðsstjóra Flyover Iceland, en hjá fyrirtækinu eru um 50 starfsmenn og starfsemin er hýst á Granda í glæsilegri byggingu sem var sérstaklega sniðin utan um sýningarsalinn. Í honum er 300 fermetra skjár sem fólk svífur í kringum meðan á fluginu stendur.

Íslenska fjárfestingarfyrirtækið Esja Attractions stendur að verkefninu ásamt Pursuit sem rekur sambærileg verkefni í N-Ameríku og er í eigu Viad sem er skráð á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Flyover-vörumerkið er stækkandi og innan skamms verður annað útibú opnað í Las Vegas.

Yfir 100 klukkustundir af þyrluflugi fóru í að gera myndina á um 40 tökustöðum en það var þyrluflugmaðurinn Jón „spaði“ Björnsson sem flaug með kanadískt kvikmyndagerðarfólk við gerð hennar. Það er óhætt að segja að útkoman sé glæsileg, í það minnsta kallaði hún fram fiðrildi í maganum á þeim sem þetta skrifar.

Vefur Flyover Iceland

Þættir