Þegar Atli Eðvaldsson hundskammaði Eið Smára (myndskeið)

ÍÞRÓTTIR  | 12. september | 14:39 
Eiður Smári Guðjohnsen og Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) hittu Atla Eðvaldsson við gerð Guðjohnsen-þáttanna, þátta um feril Eiðs Smára sem Sveppi vann að.

Eiður Smári Guðjohnsen og Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) hittu Atla Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliða og landsliðsþjálfara í knattspyrnu, við gerð Guðjohnsen-þáttanna, þátta um feril Eiðs Smára sem Sveppi vann að og birtir voru í Sjónvarpi Símans. Atli lést sem kunnugt er 2. september og var útför hans gerð frá Hallgrímskirkju í dag. 

Eiður Smári og Atli rifjuðu í einum þáttanna upp augnablik úr landsliðsferli Eiðs, en Atli var landsliðsþjálfari þegar Eiður var stjarna hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Eiður var langbesti leikmaðurinn í íslenska landsliðinu og viðurkenna Atli og Eiður að samskiptin hafi stundum verið erfið. 

„Atli kom stundum á hliðarlínuna og lét mig heyra það. Svo skoraði ég kannski eitt og leit þá bara á hann," sagði Eiður og Atli svaraði því á skemmtilegan máta.

„Þetta var á móti Litháen og ég kallaði hann á hliðarlínuna og hundskammaði hann, hann horfði bara á mig og vinkaði. Ég horfði á hann og hótaði að taka hann út af. Svo skoraði hann og horfði bara á mig og brosti. Svo fór hann að nudda mér upp úr þessu öll árin,“ sagði Atli og þeir hlógu. 

Þetta skemmtilega brot úr þættinum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Þættir