Lampard við Loga: Þetta er pirrandi (myndskeið)

ÍÞRÓTTIR  | 22. september | 19:50 
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, spjallaði við Loga Bergmann Eiðsson á Símanum sport eftir 1:2-tap á heimavelli fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Lampard var sérstaklega ósáttur við annað markið sem Liverpool skoraði, en sá margt jákvætt í leik sinna manna.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, spjallaði við Loga Bergmann Eiðsson á Símanum sport eftir 1:2-tap á heimavelli fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Lampard var sérstaklega ósáttur við annað markið sem Liverpool skoraði, en sá margt jákvætt í leik sinna manna. 

„Þetta er pirrandi. Við fengum tvö mörk á okkur. Við hefðum aldrei átt að fá seinna markið á okkur, þar sem hann fær frían skalla. Eftir það sýndum við allt. Það er ástæða fyrir því að stuðningsmennirnir klöppuðu eftir leik. Þeir sáu liðsanda og karakter. Við fengum tækifæri til að tapa ekki leiknum og jafnvel vinna hann. Við getum tekið jákvæða hluti úr þessu, en við verðum að ná í stig líka,“ sagði Lampard við Loga. 

Lampard þurfti að gera tvær skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. 

„Það er erfitt, því þú vilt geta skipt inn síðar í leiknum til að breyta honum. Því miður fengum við ekki tækifæri til þess. Það gerist stundum. Alonso var mjög góður þegar hann kom inn á, því það er ekki auðvelt að koma inn í svona leik. Það sama gildir um Zouma.“ 

Ungir leikmenn hafa verið áberandi hjá Chelsea á leiktíðinni og hrósaði Lampard Fikayo Tomori sérstaklega. 

„Leikmennirnir spila því þeir eiga það skilið. Tomori var framúrskarandi gegn Mo Salah í dag. Við eigum líka unga leikmenn sem eru meiddir. Callum Hudson-Odoi og Reece James og Ruben Loftus-Cheek. Reyndari leikmenn verða að hjápa ungu leikmönnunum okkar. Mér líkar vel að vinna með ungu strákunum.“

Chelsea er í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með átta stig eftir sex leiki. 

„Við viljum ekki líta á töfluna því hún lítur ekki vel út, en það er ekki mikið búið. Ég er stoltur af þessari frammistöðu, sérstaklega í seinni hálfleik. Vonandi náum við að laga smáatriði og komast upp töfluna,“ sagði Lampard. 

Þættir