24 klukkustunda langur niður

FÓLKIÐ  | 19. október | 15:36 
Í morgun hófst allsérstakur viðburður á Húsavík þar sem tónlistarmenn skapa nið eða svokallaða drón-tónlist í 24 klukkustundir. Að sögn Barða Jóhannssonar sem hefur umsjón með viðburðinum er lítið fyrirfram ákveðið um hvernig tónlistin þróast.

Í morgun hófst allsérstakur viðburður á Húsavík þar sem tónlistarmenn skapa nið eða svokallaða drón-tónlist í 24 klukkustundir. Að sögn Barða Jóhannssonar, tónlistarmanns, sem hefur umsjón með viðburðinum er lítið fyrirfram ákveðið um hvernig tónlistin þróast. Margir eru að spila saman i fyrsta skipti og óvæntar samsetningar á tónlistaratriðum munu líta dagsins ljós.

Skúli Sverrisson, Sin Fang, Ólöf Arnalds og Borgar Magnason eru á meðal þeirra íslensku tónlistarmanna sem koma fram en auk þeirra eru erlendir tónlistarmenn eins og Julianna Barwick, Melissa Auf Der Maur og Nathan Larson komnir til landsins vegna hátíðarinnar.

Hátíðin sem nefnist Arctic Drone snýst þó ekki bara um tónlist því Yoga Shala jógastöðin tekur þátt og hluti af dagskránni er sex klukkustunda langt jóga með þeim.

Í myndskeiðinu útskýrir Barði hvernig tónlistardagskráin er hugsuð og kíkt er í salinn á Fosshótel Húsavík þar sem herlegheitin fara fram.

Staðsetningin skiptir miklu máli að sögn Barða þar sem reikna megi með að meira los væri á þátttakendum ef hátíðin væri haldin í Reykjavík. „Fólk er náttúrulega með líf sem einhver rútína er í. Það er svo gott að komast úr þeirri rútínu og út á land í fallegan bæ eins og Húsavík sem er með mjög jákvæða og skapandi orku,“ segir Barði. Þetta skapi fullkomna umgjörð fyrir samvinnu tónlistarfólksins sem sé margt að hittast í fyrsta skipti.  

Þau Melissa og Nathan hafa reynslu af því að setja upp svipaða viðburði víða um heim og Barði fékk þau með sér í lið þegar hugmyndin kom upp. Þegar hann byrjaði að nálgast tónlistarmenn og kanna áhugann á að taka þátt segir hann að undirtektirnar hafi verið mjög góðar. Sérstaklega hugmyndin um að nálægðin væri svona mikil. „Sérstaklega leist fólki vel á að kynnast innbyrðis og mögulega gæti eitthvað nýtt komið út úr þessu. Þetta er svona eins og vera með jarðveg sem maður setur fræ ofan í og svo vex eitthvað út frá því. Ég vil meina að þetta sé svona fræ.“ 

Vonir standa til að hægt verði endurtaka leikinn að ári en AVA aldinvatn, Íslandshótel, Flugfélagið Ernir, Basilica Hudson, Lumen Project, Yoga Shala, Geo Sea, North Sailing, Visit North Iceland, Visit Húsavík, Bílaleiga Akureyrar eru samstarfsaðilar hátíðarinnar.

 

Þættir