Sauð á Gylfa á varamannabekknum?

ÍÞRÓTTIR  | 21. október | 8:17 
Everton er komið á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir 2:0-heimasigur gegn West Ham á Goodison Park í Liverpool á laugardaginn.

Everton er komið á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir 2:0-heimasigur gegn West Ham á Goodison Park í Liverpool á laugardaginn. Fyrir leik helgarinnar hafði Everton tapað fjórum leikjum í röð í deildinni og var farið að hitna allverulega undir Marco Silva, stjóra liðsins, enda sat liðið í og við fallsæti eftir fyrstu átta umferðirnar.

Liðið fór hins vegar upp í fjórtánda sæti deildarinnar í 10 stig eftir sigur helgarinnar en það voru þeir Bernard og Gylfi Þór Sigurðsson sem skoruðu mörk Everton í leiknum. Gylfi Þór byrjaði á bekknum í leiknum en Íslendingurinn öflugi hefur mátt þola gagnrýni fyrir frammistöðu sína í upphafi tímabilsins.

„Gylfi er svo mikill keppnismaður að hann hefur núll húmor fyrir því að vera bekkjaður,“ sagði Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans, í sjónvarsþættinum Vellinum sem var á dagskrá Símans Sport í gær. „Hvað þá að koma inn á 87. mínútu fyrir gæjann sem var valinn á undan honum,“ bætti Jóhann Birnir Guðmundsson við en Jóhann var gestur í þættinum í gær.

„Gylfi hefur verið sjóðandi í hausnum yfir þessu en þessi innkoma hjá honum var geggjuð. Þegar maður sér hann skora svona mark þá spyr maður sig bara hversu oft ætli hann sé búinn að æfa þetta? Þetta er eins og eitthvert kennslumyndband, hvernig hann fintar og skýtur svo upp í samskeytin,“ sagði Jóhann en umræðuna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Þættir