Mikilfengleg sýn þegar klakastífla brast

INNLENT  | 30. október | 11:04 
Inga Linda Gestsdóttir var á leiðinni til síns heima í gær þegar hún sá að vatnsmagn Víðidalsár í Víðidal við heimili hennar í Kolugili hafði aukist. Klakastífla hafði líklega brostið og dreif hún sig þá að Kolufossum og tók myndband af því þegar fossinn umbreyttist skyndilega og varð gífurlega vatnsmikill.

Inga Linda Gestsdóttir var á leiðinni til síns heima í gær þegar hún sá að vatnsmagn Víðidalsár í Víðidal í Húnaþingi vestra við heimili hennar í Kolugili hafði aukist. Klakastífla hafði líklega brostið og dreif hún sig þá að Kolufossum við Kolugljúfur og tók myndband af því þegar fossinn umbreyttist skyndilega og varð gífurlega vatnsmikill. Vísir greindi fyrst frá.

„Ég var á leiðinni heim þegar ég tók eftir því að það var komið meira vatn í ána,“ segir Inga í samtali við mbl.is. Spurð segir hún að því hafi verið um algjöra tilviljun að ræða að hún hafi náð herlegheitunum á myndband. Hún segir þetta gerast nokkrum sinnum á ári en þetta sé í fyrsta skipti sem hún sjái þetta frá þessu sjónarhorni og nái á myndband.

Inga segir að það hafi komið henni mikið á óvart hve mikla athygli myndbandið hefur fengið en yfir 300 manns hafa deilt því á Facebook síðan hún setti það þar inn í gærkvöldi. „Ég deildi þessu bara til að sýna fjölskyldu og vinum,“ segir hún eilítið hissa á allri athyglinni.

Inga segir magnað að hafa upplifað þessa skynilegu aukningu á vatnsmagni, sér í lagi vegna þess hve áin var vatnslítil í gær. Spurð segir hún enga hættu vera á ferðum þegar svona gerist enda sé gjlúfrið við Kolufossa djúpt.

Þættir