„Við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera“

VIÐSKIPTI  | 5. nóvember | 13:17 
„Við höfum lagt gríðarmikla áherslu á að gera hlutina rétt og vel frá byrjun og verið með fókus á kostnaðarhliðina,“ segir Arnar Már Magnússon, forstjóri flugfélagsins Play, sem kynnti vörumerki sitt og fyrirhugaða starfsemi á kynningarfundi í Perlunni í morgun. Félagið ætlar að hefja farmiðasölu síðar í þessum mánuði og byrja á því að fljúga á tveimur flugvélum til Evrópu. Næsta sumar er horft til þess að starfsmenn verði 2-300 talsins.

„Við höfum lagt gríðarmikla áherslu á að gera hlutina rétt og vel frá byrjun og verið með fókus á kostnaðarhliðina,“ segir Arnar Már Magnússon, forstjóri flugfélagsins Play, sem kynnti vörumerki sitt og fyrirhugaða starfsemi á kynningarfundi í Perlunni í morgun. Félagið ætlar að hefja farmiðasölu síðar í þessum mánuði.

Arnar Már segir í samtali við mbl.is að „einfaldleikinn“ verði það sem muni greina Play frá öðrum íslenskum flugfélögum sem hafa reynt að feta þann veg að halda úti millilandaflugi til og frá landinu í samkeppni við Icelandair.

Fram kom í máli hans á blaðamannafundinum að þessi einfaldleiki fælist helst í því hvernig flugvélafloti félagsins yrði samansettur, en Play ætlar einungis að fljúga flugvélum af gerðinni Airbus A320 og hafa þær á leigu, fremur en í eigin eigu.

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2019/11/05/ekkert_vandamal_ad_fa_flugvelar/

Arnar Már steig nokkuð óvænt fram sem forstjóri félagsins á blaðamannafundinum í morgun, en Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fjármálasviðs, hafði helst verið í forsvari fyrir WAB-verkefnið undanfarna mánuði.

Sveinn Ingi sagði við mbl.is, spurður út í þetta, að stofnendur félagsins hefðu sest niður og rætt málin og ákveðið hver passaði best í hvaða hlutverk innan félagsins. Niðurstaðan hefði verið sú að Arnar Már væri best til þess að leiða félagið sem forstjóri.

 

Reiknar með 200-300 manns í vinnu næsta sumar

Hópur fólks hefur unnið að stofnun Play undanfarna mánuði undir vinnuheitinu WAB. Þegar í dag eru rúmlega 20 manns að störfum hjá félaginu og voru þeir eflaust nær allir staddir í Norðurljósasal Perlunnar í morgun er starfsemin var kynnt.

Play ætlar að byrja á því að vera með tvær flugvélar í rekstri, en næsta sumar er áformað að flugvélar félagsins verði sex talsins. Arnar Már segir að hann reikni með því að flugfélagið verði með á bilinu tvö- til þrjúhundruð manns í starfi á þeim tímapunkti. Búið er að opna fyrir umsóknir á vef félagsins.

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2019/11/05/lagmarksaldur_flugfreyja_verdur_18_ar/

Arnar Már hefur áralanga reynslu úr flugbransanum, hann starfaði hjá Ryanair í sjö ár áður en hann flutti heim til Íslands og gekk til liðs við WOW air árið 2013. Þar stýrði hann flugrekstrarsviði félagsins. Hann segist vonast til þess að fá fyrrverandi starfsmenn WOW air til starfa hjá Play.

„Það besta sem maður tekur út úr WOW air er fólkið sem maður starfaði með, algjörlega yndislegt og við vonum að sem flestir komi til liðs við okkur,“ segir Arnar.

Flugrekstrarleyfi nálgast

„Það er á mjög góðum stað, við höfum átt mjög gott samstarf við Samgöngustofu,“ segir Arnar spurður út í stöðuna á væntu flugrekstrarleyfi félagsins, sem formlega var sótt um í lok júní. „Við erum að vinna í skráningu flugvéla, þegar því er lokið er hægt að gefa það út vonandi.“

Fram kom á blaðamannafundinum að Play ætlaði sér að hafa höfuðstöðvar sínar á Íslandi og að starfsmenn félagsins myndu starfa samkvæmt íslenskum kjarasamningum. „Við erum íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi og við vinnum samkvæmt því,“ segir Arnar.

Hugsa bara um sig

Tvö ný flugfélög hafa verið í umræðunni að undanförnu, annars vegar WAB sem nú hefur verið kynnt sem Play og svo WOW (2), félag bandarísku athafnakonunnar Michelle Ballarin. Arnar Már segir aðspurður að kynning á fyrirætlunum Play í dag hafi ekkert með það að gera að vera á undan að kynna raunhæfa áætlun að stofnun nýs flugfélags.

„Við erum ekki að hugsa um aðra eins og staðan er núna, við erum að einbeita okkur að okkur sjálfum. Það sem að olli því að við komum fram í dag er einfaldlega það að áhuginn var gríðarlegur og við erum komin á góðan stað með okkar verkefni. Við vildum leyfa fólki að heyra hvað væri á bak við WAB air, það er búið að vera mikið óskað eftir því,“ segir Arnar Már.

 

Evrópuflug til að byrja með

Á fundinum kynnti Arnar Már að Play ætlaði sér að fljúga bæði til Evrópu og Bandaríkjanna. Byrjað verður á því að fljúga til áfangastaða í Evrópu „til að byrja með“ og svo verður leiðakerfið stækkað og ætlunin er að hefja Ameríkuflug, „vonandi næsta sumar“.

„Leiðakerfið verður kynnt samhliða sölu, en er svo sannarlega tilbúið á okkar borðum,“ segir Arnar Már, sem vill ekkert gefa upp um það hvaða áfangastaða yrði horft til í fyrstu.

Hvergi bangin

Sviptivindar hafa leikið um flugheiminn að undanförnu, en Arnar Már segir að það sé enginn skjálfti í teyminu að baki Play.

„Alls ekki, við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera. Við erum búin að vinna að því að gera þetta sjálfbært félag og þegar grunnurinn er góður þá vegnar félaginu vel,“ segir forstjórinn.

Greint var frá því á fundinum í morgun að 80% fjármögnunar félagsins kæmi erlendis frá, frá breskum fagfjárfestasjóði, og 20% frá Íslandi, meðal annars með þátttöku fyrirtækisins Íslenskra verðbréfa. Arnar Már vill ekki gefa upp hverjir það eru sem fjármagna félagið en hann segir að fjármögnunin sé tryggð og að hann reikni með því að félagið muni ekki þurfa að sækja meira fé til rekstursins til lengri tíma.

 

„Við erum komin með flugvélar, við þurfum síðan að einblína á stækkunina, en við erum búin að vera í samtölum við marga flugvélaleigusala undanfarin misseri,“ segir Arnar Már spurður út í það hvernig félaginu hafi gengið að útvega sér flugvélar til leigu.

Hann segir aðspurður að félagið hafi ekki fundið fyrir því að orðspor Íslands innan flugrekstrarbransans hafi skaddast vegna falls WOW air og kyrrsetningar Isavia á flugvél bandaríska flugvélaleigufélagsins Air Lease Corporation í kjölfarið.

„Alls ekki, þvert á móti held ég. Ísland er þekkt fyrir flugsamgöngur og við höfum staðið okkur vel í gegnum tíðina í þeim efnum. Lega landsins er líka ákjósanleg, fyrir lággjaldaflugfélög,“ segir Arnar Már.

Þættir