Tveir látnir í slagviðri í Frakklandi

ERLENT  | 24. nóvember | 16:23 
Tveir eru látnir og að minnsti kosti eins er saknað eftir að mikið úrhelli gerði í suðurhluta Frakklands. Umfangsmikil flóð fylgdu úrkomunni en þau eru í rénun að sögn yfirvalda.

Tveir eru látnir og að minnsti kosti eins er saknað eftir að mikið úrhelli gerði í suðurhluta Frakklands. Umfangsmikil flóð fylgdu úrkomunni en þau eru í rénun að sögn yfirvalda.

Flóðin hrifu með sér bíla og breyttu vegum í ár. Einn fannst látinn í þorpinu Le Muy og í þorpinu Cabasse fannst karlmaður á sextugsaldri látinn í bíl sínum. Karlmanns á áttræðisaldri er saknað í þorpinu Saint-Antonin-du-Var en hann fór af heimili sínu í nótt í úrhellisrigningu. 

4.500 heimili eru án rafmagns vegna slagviðrisins, sem hefur einnig haft áhrif á samgöngur. 

 

Jean-Luc Videlaine, talsmaður héraðsstjórnar í Var, segir í samtali við AFP að úrkoman síðustu daga sé „söguleg“ og að tjónið sé verulegt. Á sumum stöðum rigndi jafn mikið á einum til tveimur sólarhringum og gerir alla jafna á tveimur til þremur mánuðum. 

Jean-Pierre Hameau, veðurfræðingur á Veðurstofu Frakklands, varar við því að tengja slagviðrið við loftslagsbreytingar og segir hann slagviðri líkt og það sem gekk yfir svæðið sé frekar algengt. 

Þættir