Söguleg skref í betrunarmálum

INNLENT  | 12. desember | 15:51 
„Við erum að skilgreina þetta sem betrunar- eða bataferli sem þýðir það að einhver er veikur og honum getur batnað,“ segir Tolli Morthens sem mun leiða stýrihóp sem er ætlað að innleiða nýja heildarsýn í fangelsis- og betrunarmálum og ríkisstjórnin hefur samþykkt.

„Við erum að skilgreina þetta sem betrunar- eða bataferli sem þýðir það að einhver er veikur og honum getur batnað,“ segir Tolli Morthens sem mun leiða stýrihóp sem er ætlað að innleiða nýja heildarsýn í fangelsis- og betrunarmálum og ríkisstjórnin hefur samþykkt.

Tolli leiddi nefnd skipaða fólki bæði úr grasrótinni og fagaðilum sem vann skýrslu um heildstæða nálgun á fangelsis- og betrunarmálum hér á landi. Nú hefur ríkisstjórnin samþykkt tillögur nefndarinnar sem voru kynntar á fundi í vinnustofu Tolla fyrr í dag. Í skýrslunni er mikil áhersla lögð á meðferð við ávana- og fíknisjúkdómum ásamt stuðningi við fjölskyldur þeirra sem eru dæmdir fyrir afbrot og sjá fram á fangelsisvist.

Eftirfylgni í betrunarferlinu fær aukið vægi þar sem markvissari skref eru tekin í að aðstoða fyrrverandi fanga við að koma út í samfélagið að nýju. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir þetta vera stór skref í málaflokknum sem hafi verið kallað eftir og haldist í hendur við aðgerðaáætlun í heilbrigðisþjónustu fanga sem var kynnt fyrr í vikunni.

Á meðal tillagna nefndarinnar er svokallað Batahús sem ólík ráðuneyti munu koma að. Þar verður unnið úr ítarlegri greiningu á aðstæðum og vandamálum hvers og eins. Föngum í bata mun þá bjóðast félagslegur stuðningur á borð við aðstoð við að komast í atvinnu og nám en einnig sálfræðilegur stuðningur og aðstoð við að leysa úr fjárhagserfiðleikum. 

Í myndskeiðinu er rætt við þá Tolla og Ásmund Einar ásamt Agnari Bragasyni sem átti sæti í nefndinni. Á fundinum var fólki tíðrætt um að þessi nálgun, að tengja saman fagfólk og grasrótina þ.e. fulltrúa sem fangar treysta, væri nýstárleg en hefði gefið afar góða raun. Sem dæmi má nefna að hópurinn hittist gjarnan á vinnustofu Tolla til að funda.     

Þættir