Vél Ryanair fylltist af reyk

ERLENT  | 22. janúar | 9:42 
George Calugaru var á leið frá Búkarest í Rúmeníu til Lillestrøm í Noregi að heimsækja móður sína í gær þegar farþegarými Boeing 737-800-þotu írska flugfélagsins Ryanair fylltist skyndilega af reyk og þurfti að snúa vélinni við. Uta frændi hans tók myndskeið af skelfingarástandinu í röðum farþega.

George Calugaru, 24 ára gamall Rúmeni á leið til Gardermoen-flugvallarins utan við Ósló í heimsókn til móður sinnar, sem býr í Lillestrøm, lenti í ýmsum hremmingum á leið sinni í gær, þar á meðal þeim að farþegarými Boeing 737-800-farþegaþotu írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair fylltist af reyk skömmu eftir flugtak frá Búkarest á leið til London þar sem millilent var.

Upphaflega átti flug FR1006 frá Otopeni-flugvellinum í Búkarest til Stansted í London að fara í loftið klukkan 06:40 að staðartíma í gær. Hálftíma áður en sú vél átti að fara í loftið var farþegum tilkynnt að bilun hefði komið upp og skipt yrði um flugvél.

Skelfingu lostnir farþegar í reykjarmekki

737-800-vélin kom þá í staðinn en skiptin tóku sinn tíma svo ekki var farið í loftið fyrr en klukkan 10:00. Skömmu eftir að vélin hóf sig á loft með 169 farþega um borð tók farþegarýmið að fyllast af reyk sem olli mikilli skelfingu um borð svo sem heyra má í meðfylgjandi myndskeiði sem Catalin Uta, frændi Calugaru og samferðamaður, tók upp.

Áhöfnin kallaði Mayday og tilkynnti um reyk í farþegarými en þegar hún hafði klifrað upp í 5.000 feta hæð tók mökkurinn að þynnast og neyðarkallið var afturkallað.

„Þetta var skömmu eftir flugtak,“ sagði Calugaru í samtali við mbl.is í gær eftir að hann hafði lent heilu og höldnu á Gardermoen-flugvellinum. „Vélin byrjaði að fyllast af reyk og flugstjórinn kom þá með tilkynningu og sagði að  ekkert væri að óttast, þetta væri eðlilegt,“ sagði Calugaru, en flugstjórinn gaf þá skýringu á ástandinu að afísingarvökvinn sem notaður hafði verið á vélina hefði með einhverjum hætti lekið inn í hana og valdið reyknum.

„Hataðasta flugfélag Bretlands?“

„Við hringsóluðum í loftinu í smátíma en lentum svo aftur og þá tók enn við nokkurra klukkutíma bið,“ sagði Calugaru frá. Að lokum hafi farþegunum verið smalað yfir í þriðju vélina sem fór í loftið klukkan 15:00 að rúmenskum tíma, átta og hálfri klukkustund á eftir áætlun, og þá var millilendingin í London eftir.

Calugaru skilaði sér að lokum til Lillestrøm undir miðnætti í gær eftir langan dag á ferðinni þar sem alls fjórar flugvélar komu við sögu.

Ýmsar flugfréttasíður fjölluðu um atvikið í gær, þar á meðal The Aviation Herald, auk nokkurra rúmenskra fjölmiðla en annars virðist atvikið ekki hafa farið hátt og kannski eins gott þar sem flugfélagið írska hefur átt verulega undir högg að sækja upp á síðkastið fyrir ýmsa hluti, endalaus aukagjöld, áhafnir sem fái bara greitt fyrir þann tíma sem þær eru í loftinu, óþægileg sæti og fleira.

Líklega hafa lýsingarnar þó sjaldan verið svo myndrænar sem í grein The Guardian í fyrra, „Ryanair: Hataðasta flugfélag Bretlands?“ eða „Ryanair: Britains Most Hated Airline?“ og svo bætt við í meginmálinu „þú greiðir aukalega fyrir spurningarmerkið“.

 

Þættir