Macron gerir dómara brjálaða

ERLENT  | 28. janúar | 12:53 
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er harðlega gagnrýndur af helstu dómurum landsins fyrir að setja í gær út á dóm yfir manni sem drap gyðingakonu í París árið 2017.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er harðlega gagnrýndur af helstu dómurum landsins fyrir að setja í gær út á dóm yfir manni sem drap gyðingakonu í París árið 2017. 

Sarah Halimi, 65 ára, íbúi í Bell­eville-hverf­inu, var drepin af 27 ára gömlum nágranna hennar, Kobili Tra­ore, að kvöldi til 3. apríl 2017. Hann braust inn til hennar og barði hana til óbóta áður en hann henti henni út um glugga á íbúðinni. Ekki er vitað hvort hún lést af völd­um bar­smíða eða fall­inu af þriðju hæð.

Fram kom í frétt­um franskra fjöl­miðla að Tra­ore hafi kallað Allah Ak­b­ar (Guð er mik­ill) og farið með vers úr kór­an­in­um áður en hann henti henni út um glugg­ann. „Ég hef drepið djöf­ul­inn,“ á hann að hafa kallað á ar­ab­ísku. 

Við blóðrann­sókn kom í ljós að hann hafði neytt mik­ils magns kanna­bis áður en hann framdi morðið. Tra­oré seg­ir sjál­fur að hon­um hafi ekki verið sjálfrátt og að hann glími við al­var­leg and­leg veik­indi. Hann var hins veg­ar met­inn sak­hæf­ur við rann­sókn dóm­kvaddra geðlækna og var gefin út ákæra á hendur honum árið 2018 þar sem hann var bæði ákærður fyrir morð og gyðingahatur.

Drápið vakti mikla reiði bæði í Frakklandi og víðar vegna gyðingahaturs ungra öfgafullra múslima í hverfum innflytjenda í borginni. Áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Traoré, sem var forfallinn kannabisneytandi, hafi verið haldinn stundarbrjálæði og því ekki ábyrgur gjörða sinna og sakhæfur. 

Frétt mbl.is

Macron lét hafa eftir sér að þrátt fyrir að niðurstaðan hefði kannski orðið sú sama — að Tra­oré væri ósakhæfur, hefði það átt að fara fyrir héraðsdóm. 

Yfirdómarar, formaður dómarafélags Frakklands og saksóknarar segja að það sé ekki í höndum forseta landsins að tjá sig um málefni dómstóla því þrískipting ríkisvaldsins sé grunnstoð lýðræðisríkis. Að virða sjálfstæði dómstóla. 

Gyðingahatur hefur aukist mjög í Frakklandi þrátt fyrir þá skömm sem hvílir sem mara á þjóðinni að hafa sent fjölmarga gyðinga úr landi í seinni heimsstyrjöldinni. Franskir gyðingar hafa ítrekað verið fórnarlömb íslamista undanfarin ár. Á sama tíma hefur tilkynningum um hatursárásir í garð gyðinga fjölgað um 74%. 

Þættir