Von um að lækna sjóveiki

INNLENT  | 11. febrúar | 15:02 
Vonir standa til að hægt verði að draga úr áhrifum sjóveiki á fólk en í dag var tekinn í notkun nýr sjóveikihermir við Háskólann í Reykjavík. Hann verður nýttur til að rannsaka áhrif ýmiss konar hreyfinga á líkamann og vonandi finna lausnir á sjóveikinni sem Íslendingar þekkja svo vel.

Vonir standa til að hægt verði að draga úr áhrifum sjóveiki á fólk en í dag var tekinn í notkun nýr sjóveikihermir við Háskólann í Reykjavík. Hann verður nýttur til að rannsaka áhrif ýmiss konar hreyfinga á líkamann og vonandi finna lausnir á sjóveikinni sem Íslendingar þekkja svo vel. 

Í tækinu er sýndarveruleiki tengdur við hreyfanlegt undirlag sem líkir eftir hreyfingunni sem fólk þekkir úr sjóferðum. Einnig er hægt að líkja eftir aðstæðum við hreyfingu á borð við akstur og flug á meðan þráðlausir skynjarar nema áhrifin á heilann og líkamann. 

Uppbygging á aðstöðunni er samstarfsverkefni Heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík, Lífvísindaseturs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Hannes Petersen sem er forstöðumaður í líffærafræði við læknadeild HÍ segir að mögulega geti fólk, sem verði gjarnan sjóveikt, farið í herminn og þannig undirbúið sig fyrir væntanlega sjóferð.

Fyrst um sinn þarf þó að rannsaka fyrirbærið vandlega og margt er enn óvitað um hvernig virkni hreyfiveikinnar er innan líkamans en rætt er við Hannes í myndskeiðinu og ungan sjálfboðaliða sem prufaði tækið við vígsluathöfn í HR í hádeginu.

Í tilkynningu frá HR segir að um talsverð tímamót sé að ræða:

„Paolo Gargiulo, dósent við verkfræðideild og forstöðumaður Taugalífeðlisfræðistofnunar Háskólans í Reykjavík, segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkur tæknibúnaður sé tekinn í notkun í rannsóknum og tengdur við mælingar með þráðlausum heilarita, vöðvarita og hjartsláttarnema.“

Markmiðið sé að byggja upp einstakan gagnabanka þar sem mælingar á lífeðlisfræðilegum þáttum hjá einstaklingum séu tengdar við einkenni hreyfiveiki. „Þessi aðstaða hér er einstök á heimsvísu og veitir Íslendingum tækifæri til að verða leiðandi í rannsóknum á hreyfiveiki,” segir Paolo.

Fyrstu rannsókninni sem nýta mun tæknibúnaðinn var einnig hleypt af stokkunum í dag. Fjörutíu heilbrigðir einstaklingar munu taka þátt í henni. Könnuð verða áhrif mismunandi hreyfingar og hvaða hreyfigerð og styrkur framkallar kröftugustu einkenni hreyfiveiki. Áhrifin verða metin út frá niðurstöðum spurningalista og mælinga á lífeðlisfræðilegum þáttum.

Hreyfiveiki felst í nokkuð algengum einkennum sem fylgja því að ferðast um í farartæki. Sjóveiki og bílveiki eru þekktastar enda eru áhrif þeirra mjög afgerandi. Með tilkomu nýrrar tækni hafa komið fram nýjar gerðir hreyfiveiki, svo sem við notkun sýndarveruleika, við tölvuleikjaspilun og þegar einstaklingar eru þjálfaðir í hermiumhverfi fyrir t.d. flugvélar og skip. Þar er samnefnarinn sá að einstaklingurinn er hreyfingarlaus meðan sjónsviðið er kvikt. 

Helsta kenningin sem notuð hefur verið til að skýra hreyfiveiki er skynárekstrakenningin, þ.e. að sú skynjun sem leggur grunn að kerfi stöðustjórnunar passi ekki við hreyfingar einstaklingsins sem upplifir hreyfingu. Þegar hreyfiveiki gerir vart við sig ræsast aðlögunarferlar í viðtökum stöðustjórnunar og í miðtaugakerfi, til að tryggja færni í hinu óblíða hreyfiríka umhverfi. Að þekkja og skilja þessa aðlögunarferla er lykillinn að meðhöndlun hreyfiveiki,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

 

Þættir