Robyn og Sharni skráðu sig á spjöld sögunnar

ERLENT  | 12. febrúar | 10:35 
Þær Robyn Peoples og Sharni Edwards skráðu sig á spjöld sögunnar á Norður-Írlandi með því að verða fyrsta samkynhneigða parið til að ganga í hjónaband þar.

Þær Robyn Peoples og Sharni Edwards skráðu sig á spjöld sögunnar á Norður-Írlandi með því að verða fyrsta samkynhneigða parið til að ganga í hjónaband þar. Á síðasta ári voru samþykkt ný lög sem heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband og tóku þau gildi á mánudag. Peoples og Edwards, 26 og 27 ára, gengu í hjónaband í Belfast síðdegis í gær. 

Lögunum var breytt í kjölfar herferðar Amnesty International og fleiri mannréttindasamtaka undir kjörorðinu Love Equality.

„Við erum að upplifa drauma okkar í bókstaflegri merkinu. Þetta er ótrúlegt,“ segir Edwards sem er frá Brighton. Hún segir að þær hafi ekki átt von á því að verða fyrstar. Peoples, sem er frá Belfast, segir að þær, líkt og svo margir aðrir, hafi barist fyrir þessu jafnréttismáli lengi. 

Norður-Írland fylgir með þessu í fótspor annarra hluta Bretlands en hópur norðurírskra þingmanna barðist hatrammlega gegn breytingunni. 

Peoples og Edwards, sem hafa verið saman í sex ár, segja að trúarstríð meðal stjórnmálamanna hafi gert það að verkum að þetta jafnréttismál náði ekki fram að ganga fyrr en nú. 

Þættir