Örmagna og varnarlausir

ERLENT  | 12. febrúar | 5:51 
Læknar sem eru í framvarðarsveit í baráttunni við COVID-19 kórónuveiruna í kínversku borginni Wuhan eru að örmagnast. Yfir 1.100 eru látnir og 43.600 smitaðir en flestir þeirra sem hafa látist hafa sýkst í Wuhan.

Læknar sem eru í framvarðarsveit í baráttunni við COVID-19 kórónuveiruna í kínversku borginni Wuhan eru að örmagnast. Yfir 1.100 eru látnir og 43.600 smitaðir en flestir þeirra sem hafa látist hafa sýkst í Wuhan og 44% þeirra sem hafa sýkst af kórónuveirunni eru búsettir í Wuhan og nágrenni.

Aðstæður eru afar krefjandi. Sjúklingum fjölgar enn hraðar en áður og læknar eru í mikilli hættu á að smitast. Heilbrigðisstarfsmenn í Wuhan hafa sinnt þúsundum nýrra sjúklinga í hverri viku frá því veiran greindist fyrst undir lok síðasta árs. Eru þeir í aukinni hættu á að smitast sjálfir þar sem grímur eru af skornum skammti sem og annar varnarbúnaður.

Margir læknar verða því að sinna sjúklingum án þess að bera grímur eða klæðast varnarbúningi. Eins hafa þeir neyðst til þess að nota búnað aftur og aftur sem ætti alla jafna að skipta út reglulega. Jafnvel hafa læknar notað bleyjur sjálfir til þess að þurfa ekki að afklæðast og nýta þannig varnarbúningana lengur. 

Læknir á heilsugæslustöð í Wuhan segir að 16 starfssystkini hans hið minnsta séu með einkenni veirunnar, þar á meðal lungnasýkingu og hósta. „Sem læknar viljum við ekki vinna á meðan við getum verið uppspretta smits en eins og staðan er núna er enginn til að leysa okkur af,“ segir hann í viðtali við AFP.  Staðan sé einfaldlega þannig að allir starfsmenn sem eru hitalausir verði að mæta til vinnu. „Hvað myndi gerast ef það væri enginn til að starfa í fremstu línu?“

Hættan sem heilbrigðisstarfsmenn standa frammi fyrir kom berlega í ljós í síðustu viku er læknirinn sem varaði við COVID-19 lést af völdum veirunnar í Wuhan. 

Staða mála er óbreytt hér á landi en enginn einstaklingur hefur greinst á Íslandi. Hér á landi hafa nú 18 sýni verið rannsökuð af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Reyndust þau öll neikvæð.

Á fundi áhafnar samhæfingarstöðvar í gær var rætt um stöðuna í Evrópu. Smit utan Kína og innan Evrópu er enn sem komið er fátítt en samtals hafa komið upp 41 tilfelli innan Evrópu og allt fremur vægar sýkingar. Í Evrópu hefur verið gripið til yfirgripsmikilla aðgerða til að rekja för sýktra einstaklinga sem ferðast hafa frá Kína til Evrópu og hefur það gengið vel.

Samkvæmt áhættumati Sóttvarnastofnunar Evrópu er ekki reiknað með að kórónuveiran verði mikið lýðheilsuvandamál fyrir þjóðir sem beita aðgerðum, þ.á m. sóttkví og einangrun, til að koma í veg fyrir smit en getur orðið heilsufarsvandamál fyrir einstaklinga sem sýkjast. 

Þættir