Þeir sem fara inn á svæðið eru fastir þar

ERLENT  | 13. febrúar | 9:31 
Yfir tíu þúsund íbúar þorpa, skammt frá höfuðborg Víetnam, eru í sóttkví eftir að sex einstaklingar greindust með COVID-19-veiruna á svæðinu.

Yfir tíu þúsund íbúar þorpa, skammt frá höfuðborg Víetnam, eru í sóttkví eftir að sex einstaklingar greindust með COVID-19-veiruna á svæðinu.

Þetta er fyrsta stóra svæðið sem er sett í einangrun utan Kína frá því kórónuveiran kom upp undir lok árs. Um er að ræða Son Loi, landbúnaðarhérað sem er í 40 km fjarlægð frá Hanoi. Verður svæðinu lokað af í 20 daga að sögn yfirvalda og er búið að koma upp veghliðum í kringum þorpin sex á svæðinu.

Þar annast heilbrigðisstarfsmenn og lögregla eftirlit. Sótthreinsiefni er sprautað yfir ökutæki og fólk varað við því að ef það fari inn á svæðið fái það ekki fara þaðan næstu 20 daga.

Rekja má öll smit í héraðinu til konu sem var send í þjálfun til Wuhan í Kína, þaðan sem veiran kom í upphafi. Fjölskylda hennar og nágrannar hafa síðan smitast, þar á meðal þriggja mánaða gamalt barn. Konan er sjálf búin að ná heilsu að nýju og hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsi. Hin fimm eru enn á sjúkrahúsi en líðan þeirra sögð stöðug. 

Son Loi er um eitt þúsund hektarar að stærð. Flestir þeirra sem þar búa starfa við landbúnað eða í verksmiðjum í nágrenninu.

Þættir