Óvíst hvort flugfélög lifi af

VIÐSKIPTI  | 16. mars | 8:15 
Helstu flugfélög Evrópu hafa tilkynnt um umtalsverðan samdrátt í flugferðum vegna kórónuveirunnar.

Helstu flugfélög Evrópu hafa tilkynnt um umtalsverðan samdrátt í flugferðum vegna kórónuveirunnar. Hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa lækkað um rúmlega 5% það sem af er morgni. Í París nemur lækkunin 5,9%, Frankfurt 5,6%, London 5,3%, Mílanó 5,4% og Madríd 4,8%.

IAG, eigandi British Airways og spænska flugfélagsins Iberia, hefur ákveðið að draga úr flugframboði um 75% í apríl og maí samanborið við sama tímabil í fyrra. Air France ætlar að draga úr flugframboði sem nemur 70-90% þessa sömu mánuði.

EasyJet hefur tilkynnt um að mögulega verði nánast allur flugfloti félagsins kyrrsettur vegna COVID-19. Í tilkynningu varar flugfélagið við því að ekki sé öruggt að evrópsk flugfélög muni lifa af stöðvun flugferða í langan tíma. 

 

Helstu hlutabréfavísitölur hafa lækkað í morgun. Í Ástralíu nam lækkunin tæpum 9,7% og í Kína hefur hlutabréfavísitalan í Sjanghaí lækkað um 3,40% og í Shenzhen lækkaði vísitalan um 4,83%. Í Hong Kong nemur lækkunin 4,6%. Í Tókýó lækkaði Nikkei-hlutabréfavísitalan um rúm 2% en Seðlabanki Japans tilkynnti um neyðaraðgerð vegna kórónuveirunnar sem nú geisar.

„Fall Lehman Brothers árið 2008 var fjármálakreppa en það sem við sjáum núna er heilbrigðiskreppa,“ segir Mutsumi Kagawa, sérfræðingur hjá verðbréfafyrirtækinu Rakuten Securities, í morgun.

 

Seðlabanki Nýja-Sjálands lækkaði stýrivexti niður í nánast 0 í morgun og forsætisráðherra landsins, Jacinda Ardern, varar við því að kórónuveiran geti haft verri afleiðingar fyrir efnahagsástand landsins heldur en fjármálakreppan á sínum tíma. 

Þættir