Banna skortsölu og boða björgunarpakka

VIÐSKIPTI  | 17. mars | 8:23 
Fjármálaráðherra Frakklands, Bruno Le Maire, varaði við því í dag að landið stæði frammi fyrir efnahagslægð í ár vegna kórónuveirunnar. Hann tilkynnti 45 milljarða evra björgunarpakka ríkissjóðs í morgun til fyrirtækja og einstaklinga.

Fjármálaráðherra Frakklands, Bruno Le Maire, varaði við því í dag að landið stæði frammi fyrir efnahagslægð í ár vegna kórónuveirunnar.  Hann tilkynnti 45 milljarða evra björgunarpakka ríkissjóðs í morgun til fyrirtækja og einstaklinga. 

Fjármálaeftirlit Frakklands hefur lagt bann við skortsölu á 92 verðbréfum. Með skortsölu er átt við að fengin er eign, til dæmis hlutabréf, að láni og hún síðan seld. Til að endurgreiða lánið þarf því að kaupa eignina aftur. Sá sem hefur gert þetta hefur tekið svokallaða skortstöðu (e. short position) í eigninni en með því er átt við að hann á minna en ekkert af viðkomandi eign, það er skuldar hana. Þegar viðkomandi endurgreiðir lánið þá er það kallað að losa sig úr skortstöðu, segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Le Maire segir í viðtali við RTL-útvarpsstöðina að ríkisstjórnin muni fljótlega kynna frekari aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu. Nú sé spáð 1% samdrætti í hagkerfinu. Búast megi við að efnahags- og fjármálastríðið vegna kórónuveirunnar muni ríkja í talsverðan tíma. 

„Það verður langt, það verður ofbeldiskennt ... þetta stríð krefst þess að við verðum að hervæða allar okkar hersveitir,“ sagði Bruno Le Maire í viðtalinu í morgun.

Þættir