Yfirfullar lestir þrátt fyrir útgöngubann

ERLENT  | 24. mars | 8:58 
Þrátt fyrir að útgöngubann hafi tekið gildi í Bretlandi hafa birst myndir á samfélagsmiðlum af yfirfullum neðanjarðarlestum í London í morgun þar sem svo sannarlega reglur um nálægð eru virtar að vettugi.

Þrátt fyrir að útgöngubann hafi tekið gildi í Bretlandi hafa birst myndir á samfélagsmiðlum af yfirfullum neðanjarðarlestum í London í morgun þar sem svo sannarlega reglur um nálægð eru virtar að vettugi.

 

Breska ríkisstjórnin hefur farið þess á leit að farsímafyrirtækin sendi skilaboð til allra sem eru staddir í Bretlandi um að útgöngubann hafi verið sett og hvað fylgi því. Þetta er í fyrsta skipti sem breskir ráðherrar hafa farið fram á slíkt við bresku farsímafyrirtækin. Talið er að skilaboðin nái til um 60 milljóna manna víðs vegar um landið því aðeins 4% af heimilum landsins hafa ekki yfir farsíma að ráða.

Reglurnar sem gilda um útgöngubannið: 

Breski ráðherrann Michael Gove fór í morgun yfir þær reglur sem gilda í morgunþættinum Good Morning Britain og BBC Breakfast. 

Allar verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru eiga að vera að lokaðar. Spurður út í ummæli forstjóra og eiganda Sports Direct, Mike Ashley, um að þær verði áfram opnar segir Gove að þar séu ekki seldar nauðsynjavörur og því beri þeim að loka.  

Gove segir að allar stórframkvæmdir haldi áfram en þar sem fólk vinnur í návígi við hvert annað verði hætt. Það er framkvæmdir á heimilum fólks.

Spurður út í regluna varðandi fjölskyldur þar sem foreldrar hafa skilið segir Gove að takmarkanir hafi verið settar á flutning á milli heimila en börn fái að hitta báða foreldra sína, það er börn yngri en 18 ára, en búi aðeins hjá öðru hvoru foreldri á meðan útgöngubannið varir. 

 

Áfram má færa viðkvæmu fólki og eldra fólki mat svo lengi sem gætt sé fyllstu varúðar. Eins er mælt með því að fólk nýti sér vefverslanir og heimsendingar. 

Í Frakklandi hafa yfirvöld hert aðgerðir og er nú bannað að hreyfa sig utandyra og eins hefur öllum mörkuðum, þar á meðal grænmetis- og matarmörkuðum, verið lokað. 

Spænskir hermenn taka þátt í baráttunni gegn COVID-19-veirunni en hermenn hafa fundið sjúklinga yfirgefna og í sumum tilvikum látna á elliheimilum í landinu. Búið er að breyta skautasvellinu í verslunarmiðstöð í Madríd í líkhús tímabundið.

Á Ítalíu hefur nýjum smitum fækkað annað daginn í röð en þar hafa yfir sex þúsund manns látist úr kórónuveirunni. Þar lést 601 í gær. Ný smit voru 4.789 talsins í gær. 

 

Yfirmaður heilbrigðismála í Lombardia-héraði sást í fyrsta skipti í langan tíma brosa í sjónvarpsútsendingu í gær. „Við getum samt ekki lýst yfir sigri strax,“ segir Giulio Gallera og bætti við: „En við sjáum ljósið við enda ganganna.“

Þýsk yfirvöld hafa samþykkt beiðni ítölsku ríkisstjórnarinnar um að taka við hluta þeirra sem hafa veikst af COVID-19-veirunni og voru í gær sex sjúklingar fluttir á sjúkrahús í Dresden og Leipzig.

Guardian

BBC

 

Þættir